Kona á sjötugsaldri hefur verið handtekin grunuð um að hafa haldið syni sínum innilokuðum í 28 ár í íbúð í suðurhluta Stokkhólms.

Maðurinn er sagður hafa verið í haldi í íbúðinni síðan hann var tólf ára gamall en hann er 41 árs í dag.

Ættingi mæðginanna, eldri kona, hefur sagt lögreglu að eftir margra ára tortryggni hafi hún fengið staðfest sinn versta ótta.

Hún frétti um helgina að móðir mannsins lægi inn á sjúkrahúsi eftir að hafa slasast og ákvað því að fara í íbúðina á meðan að hún væri ekki heima. Í íbúðinni fann hún manninn en hún hafði ekki stigið fæti inn í íbúðina í tæp tuttugu ár.

Í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT segir hún að þetta hafi verið eins og að stíga beint inn í hryllingsmynd.

„Hann var tannlaus, fætur hans þaktir sárum og hann gat varla gengið," segir konan.

Maðurinn var í kjölfarið fluttur með sjúkrabíl á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Ástand mannsins er sagt alvarlegt.

Tekin úr skóla þegar hann var 12 ára

Móðir drengsins sem er á sjötugsaldri hefur nú verið handtekin vegna gruns um ólögmæta frelsissviptingu, alvarlegar líkamsárásir, vanrækslu og er grunuð að hafa haldið syni sínum innilokuðum í tæp þrjátíu ár.

Samkvæmt ættingjanum tók móðirin son sinn úr skóla þegar hann var í sjöunda bekk. Félagsþjónustu hafi verið gert viðvart en að sögn hennar var ekkert aðhafst. Maðurinn hefur því lifað innilokaður í íbúðinni með móður sinni í öll þessi ár og ekki haft samskipti við neinn annan en hana.

Að sögn ættingjans missti móðirin ungabarn og var langt niðri eftir andlátið. Þegar hún eignaðist annan son, manninn sem fannst á sunnudagskvöldið, fékk hann sama nafn og barnið sem lést.

„Hún hefur viljað vernda hann frá umheiminum og vildi fá son sinn aftur sér lést," segir hún.

Hún segir jafnframt að sig hafi grunað í mörg ár að eitthvað mikið væri að en enginn annar í fjölskyldunni hafi hlustað á áhyggjur hennar.

Íbúðin var eins og sorphaugur

„Ég get varla lýst því hvernig þetta var, ég er í áfalli. Öll íbúðin var eins og sorphaugur, hún hefur ekki verið þrifin í áratugi," segir konan í samtali við Expressen. Konan hafi reynt að tala við manninn en hann átti erfitt með að tjá sig, hún hafi því hringt beint á sjúkrabíl sem síðar gerði lögreglu viðvart.

„Móðir hans framdi þennan glæp, en allt samfélagið sveik hann líka og á hlut í málinu," segir konan.

Málið er nú í rannsókn lögreglunnar í Stokkhólmi, yfheyrslur fara fram á næstu dögum og íbúð mæðgnanna rannsökuð. Maðurinn sjálfur hefur ekki verið viðræðuhæfur en móður hans neitar glæpnum.