„Ég bjóst aldrei við að sjá svona hraða á minni lífstíð. Þetta er gert mjög hratt en samt svo varfærnislega. Þetta er eiginlega kraftaverk og ekkert hægt að orða það öðruvísi,“ segir Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala, um bóluefnin sem er verið að bólusetja með úti um allan heim.

Jón Magnús hefur vakið athygli fyrir skelegg skrif á Vísindavefnum og í vikunni birtist pistill um hvort gamalt lyf við sníkjudýrum gæti gagnast gegn COVID-19. Þar rekur hann hvernig lyfið ivermectin, sem uppgötvaðist 1975, sé í rannsóknum til að meta virkni í sjúklingum með COVID-19, þó enn sé mikil óvissa um gagnsemi þess.

„Það var tekið eftir því að þau lönd þar sem notkun ivermectin var sérstaklega mikil voru ekki með jafn mörg dauðsföll og búist hafði verið við vegna COVID-19. Þess vegna fór fólk að skoða það og rannsaka.

Það eru vísbendingar um gagnsemi en ekkert mikið meira en það,“ segir Jón og bætir við að til að ivermectin myndi virka sérstaklega gegn veirunni þyrfti að gefa svo stóran skammt að það væri margfalt yfir eitrunarmörkum. Hins vegar gæti gagnsemi ivermectin verið bundin við annars konar áhrif í líkamanum, til dæmis áhrif á ónæmiskerfi.

Jón Magnús Jóhannesson (ANNAR FRÁ VINSTRI)

Hann segir að verið sé að leita að lyfjum sem hafi nú þegar verið samþykkt gegn öðrum sjúkdómum sem gætu nýst í baráttunni við COVID-19. Eitt slíkt, favipiravir, hafi verið gefið ákveðnum sjúklingum hér á landi sem höfðu fengið veiruna en ekkert sé fast í hendi varðandi virknina.

„Við viljum fara varlega í vísindum og rólega í hlutina en bóluefnin sem nú eru í boði eru óumdeilt eitt merkilegasta afrek í læknavísindunum síðustu tugi ára.“

Rússneska Gamaleya-rannsóknarmiðstöðin býður upp á adenóveirubóluefnið Spútnik V og ýmis kínversk fyrirtæki hafa framleitt margvíslegar gerðir bóluefna til að sporna við heimsfaraldri COVID-19.

Jón Magnús segir að þau bóluefni sem Ísland sé búið að fjárfesta í séu, þrátt fyrir frábæran árangur og öryggi, ýmsum annmörkum háð þegar kemur að flutningi og geymslu. Hvort og hvenær hin mismunandi bóluefni á markaðnum komi til Íslands sé háð margvíslegum breytum.

„Við höfum gert samninga við Astra-Zeneca og Johnson og Johnson/Janssen en mér skilst að við séum ekki búin að gera samninga við fyrirtæki í Rússlandi eða Kína. Ef til þess kæmi að þetta sé ekki að gerast á þeim hraða sem við myndum vilja þá myndi ég segja að það væri ekkert útilokað að leita annarra bóluefna. Aðalatriðið er að þetta virki, ekki hvaðan þetta kemur,“ segir Jón.