Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Niceair, tjáði sig á Facebook-síðu sinni um óheppilegt atvik sem átti sér stað fyrr í vikunni þegar hætt var við öll flug félagsins til Lundúna. Þorvaldur segir tilkynninguna um að flugrekstrarleyfi vantaði hafa komið flatt upp á sig og að hann hafi í fyrstu helst talið að um símhrekk væri að ræða.

Atvikið orsakaðist af því að skyndileg ábending barst frá Bretlandi eftir flugtak frá Akureyri um að flugrekstrarleyfi Hifly, sem leifir Niceair vélar og áhafnir, væri ekki heimilt til áætlunarflugs. Ekkert varð því af fyrsta áætlanaflugi Niceair til Englands. Farþegar sem höfðu bókað flug til Lundúna með Niceair hafa margir hverjir orðið strandaglópar á Akureyri eða neyðst til að fara með öðrum flugfélögum.

„Við fengum óvænt símtal á skrifstofu Niceair 10 mínútum eftir flugtak í jómfrúarflugi félagsins til Bretlands fyrir viku,“ skrifar Þorvaldur. „Í símtalinu var okkur tjáð að við fengjum ekki að taka farþega með til Íslands í því flugi þar sem leyfismál væru ekki á hreinu. Þetta kom flatt upp á okkur þar sem þessi mál hafði aldrei borið á góma í þriggja mánaða ferli með breskum yfirvöldum og ekkert skriflegt hafði borist félaginu.“

„Ég harma að hafa valdið röskun á högum fólks sem sannarlega ætlar sér að styðja við bakið á okkur en hér lendum við í aðstæðum sem rekja má til Brexit og flækjustigs alþjóðasamninga sem aðild eiga að þrjú þjóðríki og tvö viðskiptabandalög.“

Þorvaldur segir að fyrir utan þetta atvik hafi reksturinn gengið vel á fyrstu viku flugfélagsins. „Flug til Kaupmannahafnar og Tenerife hafa gengið mjög vel og er bókunarstaða góð út sumarið. Ég þakka góðar kveðjur, stuðning og skilning og harma þá röskun sem orðið hefur.“