Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildar Banda­ríkja­þings og einn helsti banda­maður Donalds Trump innan þingsins, hefur nú óskað Biden til hamingju með að hafa unnið for­seta­kosningarnar þar í landi, sem fóru fram síðast­liðinn nóvember.

Þetta gerði hann eftir að kjör­menn allra ríkja Banda­ríkjanna höfðu greitt at­kvæði sín til for­seta og inn­siglað sigur Bidens.

Eftir að öll ríki Banda­ríkjanna höfðu greint frá niður­stöðunum, og stað­fest sigur Bidens með 306 kjör­mönnum, á­varpaði McConnell öldunga­deildina þar sem hann sagðist hafa vonast eftir annarri niður­stöðu en engu að síður væru kjör­mennirnir búnir að á­kveða sig.

Þá skilaði hann hamingju­óskum til Kamala Har­ris, ný­kjörnum vara­for­seta Banda­ríkjanna, og sagði að Banda­ríkja­menn gætu verið stoltir yfir því að hafa kosið kven­mann í stöðuna.

Aðrir þjóðar­leið­togar, sem höfðu ekki enn óskað Biden til hamingju, gerðu slíkt hið sama eftir að at­kvæði kjör­mannanna lágu fyrir, til að mynda Vla­dimír Pútín, Rúss­lands­for­seti, Jair Bol­sonaro, for­seti Brasilíu og Andrés Manuel López Obrador, for­seti Mexíkó.

Neitar enn að játa sig sigraðan

Trump neitar enn að játa sig sigraðan í kosningunum og hefur í­trekað haldið því fram, án sannanna, að kosninga­svindl hafi átt sér stað í kosningunum af hálfu Demó­krata. Hefur hann höfðað tugi mála fyrir dóm­stólum, þar á meðal Hæsta­rétt Banda­ríkjanna, þar sem nánast öllum hefur verið vísað frá.

Eftir ó­sigur hans í Hæsta­rétti um helgina eru mögu­leikar Trumps til sigurs nánast engir. Eftir að at­kvæði kjör­mannanna lágu fyrir virtist af­staða hans ekki hafa breyst en hann hélt því fram á Twitter í gær að „gífur­legt magn sönnunar­gagna“ um kosninga­svindl væru enn að berast.

Báðar deildir þingsins koma saman þann 6. janúar til að telja at­kvæði kjör­mannanna form­lega. Gert er ráð fyrir að ein­hverjir þing­menn Repúblikana muni mót­mæla niður­stöðum á­kveðinna ríkja og lengja þar með ferlið.

Engu að síður er nánast öruggt að kjör­tíma­bili Trumps ljúki á há­degi þann 20. janúar 2021 og Biden taki við em­bætti for­seta.