Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildar Bandaríkjaþings og einn helsti bandamaður Donalds Trump innan þingsins, hefur nú óskað Biden til hamingju með að hafa unnið forsetakosningarnar þar í landi, sem fóru fram síðastliðinn nóvember.
Þetta gerði hann eftir að kjörmenn allra ríkja Bandaríkjanna höfðu greitt atkvæði sín til forseta og innsiglað sigur Bidens.
Eftir að öll ríki Bandaríkjanna höfðu greint frá niðurstöðunum, og staðfest sigur Bidens með 306 kjörmönnum, ávarpaði McConnell öldungadeildina þar sem hann sagðist hafa vonast eftir annarri niðurstöðu en engu að síður væru kjörmennirnir búnir að ákveða sig.
Þá skilaði hann hamingjuóskum til Kamala Harris, nýkjörnum varaforseta Bandaríkjanna, og sagði að Bandaríkjamenn gætu verið stoltir yfir því að hafa kosið kvenmann í stöðuna.
BREAKING: Senate Majority Leader McConnell: "The Electoral College has spoken ... Today, I want to congratulate President-elect Biden." pic.twitter.com/lsAdel7rgd
— NBC News (@NBCNews) December 15, 2020
Aðrir þjóðarleiðtogar, sem höfðu ekki enn óskað Biden til hamingju, gerðu slíkt hið sama eftir að atkvæði kjörmannanna lágu fyrir, til að mynda Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu og Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó.
Neitar enn að játa sig sigraðan
Trump neitar enn að játa sig sigraðan í kosningunum og hefur ítrekað haldið því fram, án sannanna, að kosningasvindl hafi átt sér stað í kosningunum af hálfu Demókrata. Hefur hann höfðað tugi mála fyrir dómstólum, þar á meðal Hæstarétt Bandaríkjanna, þar sem nánast öllum hefur verið vísað frá.
Eftir ósigur hans í Hæstarétti um helgina eru möguleikar Trumps til sigurs nánast engir. Eftir að atkvæði kjörmannanna lágu fyrir virtist afstaða hans ekki hafa breyst en hann hélt því fram á Twitter í gær að „gífurlegt magn sönnunargagna“ um kosningasvindl væru enn að berast.
Báðar deildir þingsins koma saman þann 6. janúar til að telja atkvæði kjörmannanna formlega. Gert er ráð fyrir að einhverjir þingmenn Repúblikana muni mótmæla niðurstöðum ákveðinna ríkja og lengja þar með ferlið.
Engu að síður er nánast öruggt að kjörtímabili Trumps ljúki á hádegi þann 20. janúar 2021 og Biden taki við embætti forseta.