Fjöldi Breta sem búsettir eru á Íslandi hefur leitað til sendiráðsins undanfarnar vikur til að spyrjast fyrir um hvernig staða þeirra verði eftir fulla útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu um áramótin. Þá lýkur hinu svokallaða aðlögunartímabili.

Hefur sendiráðið sent skilaboð og boðið fólki á fræðslufundi til þess að skýra stöðuna. Breska ríkisstjórnin hefur einnig sent bréf til 365 þúsund Breta í öllum Evrópusambands- og EFTA-löndum vegna lífeyrisréttinda.

Bretar bíða með öndina í hálsinum yfir því mexíkóska þrátefli sem ríkir milli ríkisstjórnar Boris Johnson og samninganefndar Evrópusambandsins, með Michel ­Barnier í fararbroddi. Óttast margir að Bretland fari samningslaust inn í nýja árið.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, segir að þeir Bretar sem búsettir eru hér á landi fyrir 31. desember geti verið rólegir og að samningarnir muni ekki hafa áhrif á stöðu þeirra.

„Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru að Bretar noti síðustu vikur aðlögunartímabilsins til að undirbúa sig undir breytinguna,“ segir Nevin. „Fólk þarf að ganga úr skugga um að það sé skráð hjá Þjóðskrá og með kennitölu. Ef svo er mun breytingin ekki hafa teljandi áhrif á líf þeirra.“

Með samningnum sem undirritaður var á milli Íslands og Bretlands í janúar eru réttindi fólks tryggð sem býr hér fyrir 31. desember. Gildir það einnig fyrir Íslendinga sem búa í Bretlandi. „Fólk getur haldið áfram að vinna hér og læra,“ segir Nevin. „Heilbrigðistryggingar munu halda og lífeyrisgreiðslur munu áfram berast.“

Segir Nevin fólk sem leiti til sendiráðsins spyrja um ýmsa hluti, til að mynda um heilbrigðisþjónustu og ökuskírteini. Sendiráðið leitist við að svara, bendi fólki á kynningarefni (Living in Iceland) og haldi sérstaka fræðsluviðburði (BritIce) um breytinguna. „Ég held að flestir átti sig á breytingunni en eftir því sem við nálgumst dagsetninguna fá fleiri áhuga á þessu. Þess vegna búumst við við því að fólk muni leita í auknum mæli til okkar út árið,“ segir hann.

Breska ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að útgangan hafi sem minnst áhrif á daglegt líf þegna sinna erlendis. Síðan 2017 hafa verið haldnir rúmlega 850 kynningarviðburðir, bæði í viðkomandi löndum og á netinu.

Þá hefur stjórnin varið 3 milljónum punda, eða rúmum hálfum milljarði króna, til að styrkja góðgerðar- og sjálfboðaliðasamtök til að aðstoða Breta við að tryggja stöðu sína í viðkomandi löndum, svo sem fatlaða, eldri borgara og þá sem búa á afskekktum svæðum.