Drífa Snædal, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, fékk yfirgnæfandi stuðnings almennings til forystu í sambandinu samkvæmt nýrri könnun sem Gallup framkvæmdi dagana 4. til 15. ágúst.

Tæpur helmingur þeirra sem tóku afstöðu treysti Drífu best til að leiða sambandið og var stuðningurinn óháður breytum eins og menntun, búsetu, tekjum og stjórnmálaskoðunum, nema meðal kjósenda Sósíalistaflokksins sem sögðust treysta Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, best.

Drífa sagði af sér sem forseti ASÍ 10. ágúst, eða fimm dögum áður en könnuninni lauk. Kann það að hafa haft áhrif á niðurstöður.

Að könnuninni stóð hópur sem kallar sig Áhugafólk um málefni verkalýðshreyfingarinnar.

Í öðru sæti var Ragnar Þór, en ríflega fimmtungur sagðist treysta honum best til að leiða ASÍ. Í þriðja sæti var Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.

Sitjandi forseti ASÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson, fékk stuðning 5,7 prósenta þeirra sem tóku afstöðu og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var nefnd af 6,1 prósenti.

Nánast engir kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sögðust treysta Sólveigu Önnu, sem naut meiri stuðnings meðal Pírata, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins.

„Þetta embætti er rosalega mikilvægt og mikilvægt að það sé trúverðug manneskja sem nýtur trausts í þessari stöðu,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar og fyrrverandi varaformaður, sem er fulltrúi hópsins sem stóð að könnuninni.

„Við vildum sjá hver staðan væri og mér persónulega finnst Drífa njóta mikils trausts og það er kannski eitthvað sem manni fannst ekki heyrast mikið í umfjölluninni,“ segir Ólöf Helga. „Stuðningur við Drífu kom mér ekki á óvart en það var gaman að fá staðfestingu.“

Hvorki náðist í Drífu né Ragnar Þór en Vilhjálmur Birgisson segist djúpt snortinn yfir þriðja sætinu.

„Það veitir manni áframhaldandi trú á að maður sé á réttri leið í því að berjast fyrir bættum hag. Sérstaklega þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi,“ segir Vilhjálmur.

Aðspurður hvort niðurstöðurnar komi honum á óvart segist Vilhjálmur halda að þeir sem tóku þátt í könnuninni hafi ekki vitað hvað hafi gengið á og í hverju ágreiningurinn sé fólginn.

Vilhjálmur kveðst hæstánægður með að sjá Ragnar í öðru sæti. „Mér líst frábærlega á það. Samstarf okkar Ragga hefur verið frábært og hann er vel að því kominn,“ segir hann.