Niður­stöður nýrrar könnunar gefa til kynna að ríf­lega helmingur sveitar­stjórnar­full­trúa (54%) hafi orðið fyrir á­reiti eða nei­kvæðu um­tali á yfir­standandi eða síðasta kjör­tíma­bili og var lítill sem enginn munur á milli kynja.

Tölurnar sýna að al­gengast var að þátt­tak­endur höfðu orðið fyrir á­reiti á sam­fé­lags­miðlum en einnig var tölu­vert um á­reiti í opin­beru rými, t.d. á skemmtunum, í búð, og svo fram­vegis. Allt að 10 prósent höfðu orðið fyrir slíku á­reiti á heimilum sínum.

Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, kynnti í gær á lands­þingi Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga helstu niður­stöður könnunar um reynslu sveitar­stjórnar­full­trúa af á­reiti.

Þegar niður­stöður og greining á rann­sókninni liggja fyrir verða unnar til­lögur að að­gerðum. Þá verður gerð sér­stök könnun á starfs­um­hverfi kjörinna sveitar­stjórnar­manna sem beinist ein­göngu að ein­elti, kyn­bundinni á­reitni, kyn­ferðis­legri á­reitni sem og nei­kvæðu um­tali, öðru á­reiti og of­beldis­hegðun gagn­vart sveitar­stjórnar­full­trúum.

Mark­miðið er að safna saman upp­lýsingum um vinnu­að­stæður og við­horf kjörinna sveitar­stjórnar­full­trúa, m.a. í ljósi þess að við lok undan­farinna tveggja kjör­tíma­bila hefur rúm­lega helmingur þeirra ekki gefið kost á sér til endur­kjörs.

Við undir­búning verk­efnisins hefur ráðu­neytið m.a. haft sam­ráð við önnur ráðu­neyti, Jafn­réttis­stofu og Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga.

Í til­kynningu frá ráðu­neytinu segir að niður­stöðurnar séu hluti af stærri rann­sókn, sem Dr. Eva Marín Hlyns­dóttir, dósent við stjórn­mála­fræði­deild Há­skóla Ís­lands, vinnur að á­samt sam­starfs­fólki á starfs­að­stæðum og við­horfum kjörinna sveitar­stjórnar­full­trúa.

Verk­efna­á­ætlun í tengslum við stefnu um mál­efni sveitar­fé­laga

Ein af ellefu að­gerðum nýrrar stefnu­mótandi á­ætlunar um mál­efni sveitar­fé­laga sem Al­þingi sam­þykkti í fyrra snýr að starfs­að­stæðum kjörinna full­trúa og kynja­jafn­rétti sveitar­stjórnar­fólks. Vegna þessa verk­efnis óskaði sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráðu­neytið eftir því við Dr. Evu Marín að taka saman niður­stöður úr nokkrum af­mörkuðum spurningum úr viða­mikilli rann­sókn hennar og sam­starfs­fólks um starfs­að­stæður sveitar­stjórnar­fólks.

Í á­varpi sínu á lands­þinginu sagði Sigurður Ingi þessa að­gerð eina þá mikil­vægustu í stefnunni. „Ég sé fyrir mér að þessi vinna geti skapað grund­völl fyrir að­gerða­á­ætlun sem fæli í sér að bæta starfs­að­stæður kjörinna full­trúa og að hægt verði að vinna með slíka á­ætlun fljót­lega eftir næstu sveitar­stjórnar­kosningar,“ sagði Sigurður Ingi.

Könnunin beindist að kjörnum full­trúum bæjar- og sveitar­stjórna og var lögð fyrir dagana 16. nóvember til 4. desember 2020. Alls var könnunin send á 466 kjörna full­trúa og var heildar­fjöldi þátt­tak­enda 236. Heildar­svar­hlut­fall var því um 51 prósent.