Kristín Martha Hákonar­dóttir, verk­fræðingur sem meðal annars hefur komið að hönnun snjó­flóða­varna víðs­vegar, segir að nægir fjár­munir séu í Ofan­flóða­sjóði til að ljúka upp­byggingu ofan­flóða­varna á næstu tíu árum. Sjóðurinn hafi hins vegar verið nýttur sem hag­stjórnar­tæki og upp­bygging varna dregist úr hófi. Tíðindi gær­kvöldsins verði vonandi til þess að ýta á eftir upp­byggingu.

Kristín bendir á þetta í stöðu­upp­færslu á Face­book síðunni sinni og rifjar upp að á­skorun hafi verið send stjórn­völdum síðast­liðið vor um að klára snjó­flóða­varnir. Þar voru á ferðinni full­trúar Veður­stofu Ís­lands, full­trúar Ofan­flóða­nefndar, for­maður Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga, tveir bæjar­stjórar auk fleiri sem sendu á­skorun til ríkis­stjórnar Ís­lands vegna upp­byggingar ofan­flóða­varna á landinu. Bréfið var dag­sett 23. apríl 2019.

„Get ekki annað en í­trekað að einungis er búið að verja um helming þeirra svæða þar sem snjó­flóða­hætta er yfir á­sættan­legum mörkum - og að nægir fjár­munir eru í Ofan­flóða­sjóði til að ljúka þessum verk­efnum á næstu 10 árum,“ skrifar Kristín á Face­book.

„Sjóðurinn var stofnaður 1997 til þess að ljúka mætti upp­byggingu ofan­flóða­varna hratt. Hann hefur hins vegar verið nýttur, í seinni tíð, sem ein­hvers konar hag­stjórnar­tæki og því hefur upp­bygging varna dregist úr hófi.“

Viðbrögð stjórnvalda vonbrigði

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Kristín að við­brögð stjórn­valda við þeirri á­skorun hafi verið von­brigði. Ekki hafi þótt á­stæða til að endur­skoða þá stefnu að draga upp­byggingu varna á langinn. Hún tekur fram að hún sé á­nægð með upp­bygginguna hingað til.

„Ég er gríðar­lega á­nægð með hvernig tekist hefur til að reisa varnirnar og við erum í raun með bestu um­gjörð um það í heiminum. Hins vegar var ætlunin með Ofan­flóðar­sjóðinn að fjár­magn yrði til mjög hratt og að lokið yrði við að reisa þessar varnir á skömmum tíma. Það var til­gangurinn,“ segir Kristín.

Til hafi staðið að hafa lokið upp­byggingu allra varna fyrir árið 2020. „En miðað við hvernig ríkis­sjóður lætur fé úr sjóðnum í varnar­upp­byggingu tekur fimm­tíu ár í við­bót að ljúka þessari upp­byggingu. Og við erum í rauninni bara hálfnuð með varnar­upp­byggingu. Þó svo að henni hafi verið stýrt þannig að það eru komnir garðar á lang­flestum stöðum eins og á Flat­eyri. En við teljum það að nota sjóðinn sem hag­stjórnar­tæki al­gjör­lega ó­tækt og ekki í anda laganna,“ segir Kristín.

Von vakni nú um að tíðindi gær­kvöldsins verði til þess að vekja stjórn­völd. „Það hefur enginn á­huga á að bíða eftir næsta slysi og svo bankar þetta ansi hressi­lega upp á. Við hefðum ekki viljað sjá svona endi­lega sem vakningu en þetta hlýtur að verða það, það væri alla­vega mjög skrítið ef það yrði það ekki,“ segir Kristín.

„Menn sofna á verðinum þegar ekkert hefur gerst í langan tíma. Þetta er mann­leg til­hneiging. Við viljum helst vera á undan náttúrunni, það er bara þannig.“