Rúmlega helmingur landsmanna kveðst andvígur innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi en um þriðjungur er hlynntur. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. 

Alls sögðu um 34 prósent að þau væru mjög andvíg, 18 prósent frekar andvíg, 21 prósent frekar fylgjandi og um 11 prósent mjög fylgjandi. Síðan voru um 17 prósent sem sögðust hvorki andvíg né fylgjandi. 

Segir í tilkynningu frá MMR að litlar breytingar séu á afstöðu fólks til innheimtu slíkra gjalda frá því að síðast var framkvæmda álíka könnun í maí árið 2018.

Konur jákvæðari en karlmenn

Samkvæmt niðurstöðunum eru konur jákvæðar gagnvart innheimtu gjaldanna, en 33 prósent sögðust fylgjandi samanborið við 29 prósent karlmanna. Karlar voru líklegri til að segjast andvígir, en 54 prósent þeirra sögðust ekki fylgjandi og um 49 prósent kvenna. 

Þá var einnig munur eftir aldri fólks, en jákvæðni jókst með auknum aldri. 42 prósent þeirra sem eru í elsta aldurshópnum sögðust fylgjandi. Lítill munur var eftir búsetu. 

Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Viðreisnar líklegust til að segjast fylgjandi innheimtu, en stuðningsfólk Miðflokksins ólíklegast. 
Nánar er hægt að kynna sér niðurstöður könnunarinnar hér á heimasíðu MMR.