Meira en helmingur alvarlegra slysa og banaslysa á þjóðvegum í dreifbýli hefur orðið við útafakstur að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

„Það er því ljóst að umhverfi vega getur skipt sköpum og því mjög mikilvægt að lagfæra umhverfi vega þar sem það er hægt en setja upp vegrið að öðrum kosti,“ segir G. Pétur.

Banaslysið í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi um liðna helgi beindi athygli að öryggi við þjóðvegi landsins og þá sérstaklega að vegriðum.

Fram kom í Fréttablaðinu á miðvikudag að fyrir nokkrum árum var talið að vegrið vantaði á samtals 450 kílómetra kafla. Þar af hafi rúm 40 prósent verið á Vestfjörðum. Ýmislegt hafi verið gert en að enn skorti mikið til að kröfum sé mætt.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

G. Pétur útskýrir að samkvæmt veghönnunarreglum skuli vera öryggissvæði af ákveðinni breidd næst vegi sem sé þannig útfært að þar séu ekki hættur á borð við hindranir eða mikinn bratta.

„Þegar farið er í lagfæringar til að tryggja öryggissvæði er uppsetning vegriðs aldrei fyrsti kostur, fyrst er leitað leiða til að lagfæra umhverfi vegarins á annan hátt, til dæmis með því að draga úr bratta fláa vegkantsins eða lengja of stutt ræsi þannig að kröfur um öryggissvæði séu uppfylltar,“ segir G. Pétur. Einnig megi nefna fyllingu skurða og brottnám stórgrýtis.

„Ástæðan fyrir því að uppsetning vegriða er ekki fyrsti kostur er sú til dæmis að snjósöfnun getur orðið við vegrið og auk þess er árekstur við vegrið aldrei hættulaus. Á mörgum stöðum, til dæmis víða meðfram Djúpvegi, er þó eini raunhæfi valkosturinn að setja upp vegrið,“ ítrekar upplýsingafulltrúinn. Stór hluti öryggisaðgerða Vegagerðarinnar snúist um að lagfæra næsta umhverfi vega til að uppfylla kröfur um öryggissvæði. „Þar sem ekki er unnt að uppfylla kröfur um öryggissvæði þarf að setja upp vegrið.“