Tæp­lega helmingur þjóðarinnar er and­vígur því að gælu­dýr séu geymd niður á bíla­þil­fari í ferjunni Herjólfi. Þetta er sam­kvæmt niður­stöðum könnunar sem Prósent fram­kvæmdi dagana 17. til 30. ágúst síðast­liðinn.

Öryggi dýra í Herjólfi var tals­vert í um­ræðunni fyrir skemmstu og greindi til dæmis frétta­vefur Vísis frá því að Dýra­vina­fé­lagið í Vest­manna­eyjum hefði hafið undir­skrifta­söfnun sem 1.400 ein­staklingar höfðu undir­ritað. Sagði for­maður fé­lagsins að dæmi væru um að dýr hefðu dáið vegna á­lags og kvíða eftir veru á bíla­þil­fari ferjunnar.

Í könnuninni var eftir­farandi spurning lögð fyrir fólk:

Hversu hlynnt(ur) eða and­víg(ur)(t) ertu því að gælu­dýr séu geymd niður á bíla­þil­fari ferjunnar Herjólfs?

Það er skemmst frá því að segja að 48 prósent svar­enda voru and­víg, 17 prósent voru hlynnt því að geyma gælu­dýr á bíla­þil­fari og rúm­lega þriðjungur, eða 35 prósent, tók ekki af­stöðu.

Mark­tækur munur reyndist vera á svörum karla og kvenna, en 58 prósent kvenna sögðust and­víg á móti 38 prósentum karla.

Um var að ræða net­könnun meðal könnunar­hóps Prósents og var úr­takið 2.200 ein­staklingar, 18 ára og eldri. Svar­hlut­fall var 51 prósent.