Í ágúst fer Súsanna til Sví­þjóðar í næstu með­ferð, stofn­frumu­með­ferð, þar sem hún fær stofn­frumur úr konu sem skráð var sem stofn­frumu­gjafi í Þýska­landi. „Ég veit ekkert meira um hana nema að kannski mun hún bjarga lífi mínu.“


Með­ferðin tekur mikið á þarf Súsanna að vera á sjúkra­húsi í sirka sex vikur en þarf að vera í Sví­þjóð í þrjá mánuði undir eftir­liti lækna og veit að hún verður mjög veik. „Um leið og Aþena fæddist og nafla­strengurinn var klipptur byrjaði læknirinn að pota í mig en ég fann að ég var ekki til­búin,“ segir Súsanna sem vildi ein­beita sér að Aþenu dóttur sinni.

„Ég var með hana á brjósti og þegar við förum til Sví­þjóðar þarf að leggja mig strax inn á spítala, Aþena og Arnar verða með íbúð en mega ekki gista hjá mér þó þau megi koma í heim­sókn en ef það kemur eitt­hvað upp, bara að hún fái kvef eða eitt­hvað þá má ég ekki knúsa hana eða neitt því ó­næmis­kerfið mitt hrynur og mér finnst hún of lítil í þetta allt.“

Súsanna og læknarnir hennar komust til mála­miðlunar og fjöl­skyldan fer til Sví­þjóðar í ágúst. Hún segist bæði spennt og kvíðin fyrir ferlinu sem fram undan er. „Ég held að líkurnar á því að mér batni séu 50/50. Það eru ekki miklar líkur en klár­lega meiri en líkurnar ef ég geri þetta ekki, þær eru engar,“ segir hún.

Kvíðir því að verða veik

„Ég verð rosa­lega veik í þessu ferli, örugg­lega veikari en ég hef nokkurn tíman verið og ég er kvíðin fyrir því,“ segir Súsanna. Hún þarf að fara í viku há­skammta geisla- eða lyfja­með­ferð áður en stofn­frumu­með­ferðin sjálf hefst til að ná sem mestu af krabba­meininu úr líkamanum.
„Ég var ekki alveg búin að hugsa út í þetta svona en til dæmis ef ég fer í geislana þá þarf að setja niður sondu áður en með­ferðin hefst af því ég mun bólgna svo mikið upp og ekki geta borðað. Það er ekki spennandi til­hugsun en á sama tíma veit ég að verð­launin verða stór ef allt gengur vel,“ segir Súsanna.