Refsidómum sem fyrnast árlega hefur fækkað eftir mikla fjölgun á eftirhrunsárunum. Í fyrra fyrndust 16 dómar meðan dómþoli beið afplánunar en rúmlega helmingi fleiri dómar fyrndust árið á undan.

„Refsingar dómstóla þyngdust verulega á árunum í kringum hrunið sem jók þörf á fangarýmum. Þá var ráðist í brýna framþróun fullnustuúrræða með breytingum á lögum um fullnustu refsinga auk þess sem fangarýmum hefur verið fjölgað. Sú vinna er að skila sér í færri fyrndum refsingum,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.

Páll nefnir aukna nýtingu samfélagsþjónustu og upptöku rafræns eftirlits sem mikilvæga viðbót við fullnustu refsinga auk möguleika á afplánun utan fangelsa. „Þessar breytingar auka einnig líkurnar á að dómþolar geti markvisst aðlagast samfélaginu eftir afplánun sem aftur dregur úr líkum á að viðkomandi brjóti af sér aftur,“ segir hann.

Lítil breyting hefur orðið á fjölda dómþola á boðunarlista fangelsanna en um nýliðin áramót biðu 552 dómþolar afplánunar en þeir voru 536 í árslok 2018 og 570 árið þar á undan. Í svari Fangelsismálastofnunar kemur fram að töluverður hluti þeirra sem nú bíða afplánunar munu geta afplánað sína refsingu með samfélagsþjónustu. Tæplega 29 þúsund klukkustundir voru unnar í samfélagsþjónustu í fyrra. Það jafngildir 3.600 vinnudögum.

Fjöldi fanga í afplánun óskilorðsbundinna refsinga og vararefsinga var að meðaltali 128 á síðasta ári. Um 28 prósent þeirra voru erlendir ríkisborgarar en þeir voru 35 að meðaltali á dag.