Hellis­heiði er lokuð þessa stundina vegna um­ferðar­ó­happs. Afar slæmt veður er á heiðinni en ekki hafa fengist upp­lýsingar um eðli ó­happsins, né hvort ein­hvern hafi sakað. Sand­skeiði og Þrengslum var lokað í morgun vegna hvass­viðris en opnað var fyrir um­ferð að nýju um klukkan tíu í morgun. Þá var Hval­fjarðar­göngunum að sama skapi lokað vegna slyss

Vind­hraði á Hellis­heiði er um 19 metrar á sekúndu og hafa hviður farið upp í allt að 25 metra á sekúndu, og liggur ekki fyrir hvenær hægt verður að opna fyrir umferð að nýju. Gul við­vörun hefur verið gefin út og gera nýjustu spár ráð fyrir að kröpp lægð sem er skammt suð­vestan af Reykja­nesi fari til norð­austurs frá Breiða­firði yfir á Húna­flóa um há­degis­bil.

„Þessi breyting færir mesta hvass­viðrið í Húna­vatns­sýslur og á Trölla­skaga en gerir ráð fyrir hægari vindi á Breiða­firði og einkum á Vest­fjörðum. Þar sem enn er tals­verð ó­vissa um lægðar­brautina er brýnt að fylgjast með veður­at­hugunum og upp­færðum spám,“ segir á vef Veður­stofunnar. 

Í kvöld og nótt dregur úr vindi á öllu landinu en næsta lægð rennir sér norður eftir í fyrra­málið og ber ringingu eða slyddu með sér inn á Suð­austan­vert landið og á Aust­firði, en svalara veður og norðan­átt yfir landið vestan­vert, að því er segir á vef Veður­stofunnar. 

„Næstu daga má sjá fleiri lægðir í kortunum, þær eru mis djúpar en eiga það sam­eigin­legt að geta breyst frá nú­verandi spám, og því mikil­vægt nú sem áður að fygljast vel með veður­spám og ekki síst veður­at­hugunum, sér­stak­lega ef fólk ætlar að ferðast á milli lands­hluta.“

Uppfært kl 12.20:

Hellisheiði hefur verið opnuð á ný.