Hellisheiðinni var lokað rétt fyrir klukkan átta í morgun vegna umferðaróhapps og er heiðin enn lokuð samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að verið sé að greiða úr umferðaróhappinu.

„Það var minniháttar en það voru töluvert margir sem voru strand þar en mér skilst að það sé að greiðast úr því,“ segir Oddur í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður hvort eitthvað hafi verið um meiðsl á fólki segir Oddur að það hafi verið minniháttar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir veginn enn lokaðann og að ekki sé búið að taka ákvörðun um framhaldið vegna veðurs.

Pétur segir að þrátt fyrir að til áframhaldandi lokunar kæmi þá yrði það líklega ekki til lengri tíma þar sem líklegt sé að snjókoman muni breytast í rigningu vegna hlýinda.

Vegir gætu lokast víða

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar geta vegir víða lokað í dag vegna veðurs. Fólk er hvatt til að kynna sér veður og færð vel áður en lagt er af stað í ferðalag.

Nú þegar hefur Krýsuvíkurvegi verið lokað vegna veðurs. Þá er vegurinn um Búlandshöfða á norðanverðu Snæfellsnesi lokaður vegna óveðurs sem og Brattabrekka.

Þá hefur fyrri ferð ferjunnar Baldurs verið felld niður vegna veðurs og ef aðstæður leyfa er stefnt að því að sigla síðari ferðina en það gæti orðið seinkun á brottför.

Á Vestfjörðum hefur Kleifaheiði verið lokaðog er vegurinn Hálfdán þungfær, einbreiður á köflum og töluvert um skafrenning.

Annars staðar er greiðfært en hálka og hálkublettir víðast hvar.