„Þetta var ótrúlegur dagur og yndislegt kvöld. Veislan var í stærsta hellinum með frábærum mat og miklu viskíi – eðlilega. Þegar Pólverjar, Íslendingar og Skotar koma saman má gera ráð fyrir að partíið standi fram á rauða nótt,“ segir Skotinn Nick Reeves, sem gekk að eiga eiginmann sinn, Mikael Georgsson, frá Póllandi, í Kapellu hellanna við Hellu.

Nick, sem starfar sem leiðsögumaður hér á landi, segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að halda brúðkaupið hér á landi. Hér kynntust þeir, urðu ástfangnir og hér sé þeirra heimili. Eftir að það hafi verið ákveðið þurfti að finna stað og hann hafi orðið ástfanginn við fyrstu sýn þegar hann kom í Hellana við Hellu.

„Við vildum gera athöfnina að einhverju sérstöku og einstöku á einhvern hátt og ég meina; hversu margir hafa gift sig í gömlum keltneskum hellum?

Okkur fannst það góður kostur að taka keltneskar og skoskar hefðir og blanda þeim saman við pólskar og heiðnar rætur eiginmanns míns. Svo blönduðum við íslenskum hefðum við enda Ísland hluti af okkur. Við vildum ekki reita Óðin og aðra norræna guði til reiði með því að bjóða þeim ekki með,“ segir Nick léttur.

„Við kynntumst á Íslandi, við urðum ástfangnir á Íslandi og elskum Ísland. Það var því ekki erfið ákvörðun að halda brúðkaupið hér,“ segir Nick.
Mynd/Aðsend

Sá sem gaf þá saman kallast Żerca og Nick útskýrir að hann sé meistari athafnarinnar, en þetta sé hluti frá heiðnum tímum. Þeir báðu besta vin sinn frá Póllandi til að bregða sér í hlutverkið en einnig höfðu foreldrar brúðgumanna stórt hlutverk í athöfninni.

„Mike fékk þá hugmynd að ekki aðeins sálir okkar myndu tengjast heldur einnig með vilja fjölskyldunnar myndu hnútar sem þau bundu um hendurnar okkar tengja okkur öll með táknrænum hætti.“

Hugsað var fyrir hverju smáatriði í athöfninni og veislunni. Nick var að sjálfsögðu í ekta skotapilsi með fylgihlutum frá hálöndum Skotlands.

„Já, ég var sannur Skoti þennan dag og engin nærföt,“ segir hann og hlær. Mike var í hefðbundnum búningi frá Kraká í Póllandi þar sem hann fæddist. Báðir flugu til sinna heimalanda og létu sérsauma fötin.

„Veislan var svo í stærsta hellinum með þjóðlagatónlist sem bergmálaði um salinn með harmonikku og flautu. Maturinn var frábær og kakan unaðsleg frá Sandholti. Við gáfum hvor öðrum smá sneið fyrir framan alla gestina í hellinum til að styrkja gamla goðsögn sem hljómar á þá leið að ef maður fæðir einhvern með höndunum þýðir það að þið verðið saman að eilífu.“

Gestirnir áttu í engum vandræðum að koma til landsins og gleðjast með þeim. „Það var ótrúlegt að finna fyrir kærleikanum og stuðningnum frá öllum. Þó að veðrið væri ekki með okkur í liði held ég að við gætum ekki valið betri stað fyrir okkar sérstaka dag,“ segir Nick stoltur.