Það er mikil tilhlökkun í hópnum. Við erum búin að vera æfa á fullu og láta fólk ganga sig í form. Það er ekkert gaman af þessu öðruvísi en að fólk ráði við þetta,“ segir Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, sem ætlar ásamt hópi félagsmanna að ganga Laugaveginn um miðjan júlí.

Um er að ræða ferð sem er samstarfsverkefni Ferðafélagsins og Heljarmennafélags Blindrafélagsins, sem er útivistar- og ferðaklúbbur fyrir félaga, aðstandendur þeirra og vini.

Gönguhópurinn telur alls 22 og er helmingurinn annaðhvort blindur eða mjög sjónskertur. Fólk verður parað saman, þannig að einn sjáandi hefur auga með einhverjum blindum eða sjónskertum.

„Við tilteknar aðstæður þurfum við aðstoð. Þeir sem eru sjáandi eru yfirleitt í sjálflýsandi vestum og sá sjónskerti gengur fyrir aftan. Það er mjög algengt hjá okkur að við sjáum ekki stígana. Maður á það til að villast út af þeim og þá er gott að hafa eitthvað skært fyrir framan sig,“ segir Kristinn Halldór.

Búast við mikilli stemningu

Ferðin hefst þann 15. júlí og mun hópurinn keyra inn í Landmannalaugar, þar sem gengið verður upp í Hrafntinnusker. Á öðrum degi verður gengið í Álftavatn og á þeim þriðja í Emstrur. Þaðan verður svo gengið inn í Þórsmörk.

„Við erum að enda gönguna okkar sama dag og Laugavegshlaupið er, þannig að það verður örugglega mikil stemning á gönguleiðinni.“

Vegna fárra ferðamanna þetta sumarið, gefst hópnum tækifæri til að ganga þessa vinsælu leið í meira næði en venjulega. Kristinn Halldór segir að það muni hjálpa hópnum.

„Svo er það bara þannig þegar maður er uppi á fjöllum, að það tekur dálítið frá manni upplifunina ef það er stöðugur straumur af fólki á leiðinni. Upplifunin er miklu sterkari ef maður sér sig einan í víðáttunni.“

Sjálfur er Kristinn Halldór vanur göngumaður og hefur gengið mikið bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur þó aldrei áður gengið allan Laugaveginn, heldur aðeins hluta hans. Hópurinn hefur að undanförnu undirbúið sig með því að ganga á Esjuna, Skálafell, Helgafell, í Búrfellsgjá og Heiðmörk.

Leiðsöguhundurinn verður með í för

„Sumir í hópnum eru byrjendur í svona göngu. Fólk þarf að kynnast því hversu mikill munur það er að ganga á svona grófu yfirborði og á malarstígum, eða góðum skógarstígum, svo ég tali nú ekki um á malbiki.“

Það sé þannig mjög algengt að fólk sparki í steina eða stígi upp á stein og misstígi sig. „Við þurfum að reikna með svona 25 til 30 prósenta lengri tíma almennt. Mesti munurinn liggur í því þegar við förum niður, þar sem er sæmilega bratt eða gróft undirlag. Þá förum við mjög varlega.“

Kristinn Halldór fékk nýlega leiðsöguhundinn Vísi sem mun að sjálfsögðu fylgja eiganda sínum á göngunni.

„Hann er líka búinn að vera í þjálf­un, en við höfum verið að ganga tölu­vert saman á fjöllum. Hann þræl­virkar og eykur gönguhraðann umtals­vert á sléttlendi og svigar svo með mig milli steina og hindrana. Við förum bara saman í þetta ævintýri.“