Helgi Héðins­son, odd­viti Skútu­staða­hrepps, til­kynnti í dag um fram­boð sitt fyrir Fram­sóknar­flokkinn í Norð­austur­kjör­dæmi. Helgi sækist eftir annað hvort öðru eða þriðja sæti á lista flokksins.

Í til­kynningu frá Helga segir að megin­á­stæða þess að hann bjóði sig fram sé ó­bilandi trú hans á þeirri veg­ferð sem Fram­sóknar­flokkurinn hefur verið í á þessu kjör­tíma­bili sem er að ljúka.

„Veg­ferð sam­vinnu, upp­byggingar og um­bóta sem knúin er á­fram af fólki með hug­sjónir. Mér líður eins og ég geti lagt þeim mál­stað lið, en ekki síður að þar sé vett­vangur góðra verka sem ég vil fylgja fast eftir,“ segir Helgi í til­kynningunni.

Hann segir að sem odd­viti hafi hann á­samt góðum hópi starfað eftir hug­mynda­fræði sem byggir á því að styrkja stoðir sam­fé­lagsins með hamingju og vel­líðan fólksins að leiðar­ljósi. Hann segir leiðirnar að hamingjunni mis­munandi og að mörgu þarf að huga

„Öll viljum við hins vegar búa við sann­gjörn tæki­færi til að skapa okkur lífs­viður­væri. Við viljum njóta lífs­gæða og lífs­fyllingar. Við viljum hafa að­gengi að menntun og heilsu­gæslu. Við viljum hugsa vel um um­hverfið okkar og njóta menningar og lista. Við viljum verja meiri tíma með vinum og fjöl­skyldu og við viljum að þeir sem starfa í okkar þágu geri það af heilindum og með al­manna­hag að leiðar­ljósi. Við viljum fá að­stoð þegar við leitum eftir henni vegna veikinda, hvort sem þau eru líkam­leg eða á and­lega sviðinu. Þetta er það sem ég brenn fyrir,“ segir Helgi.

Helgi býr í Mý­vatns­sveit á­samt fjöl­skyldu sinni þar sem hann hefur síðustu fimm­tán árin byggt upp rekstur á Geit­eyjar­strönd í Mý­vatns­sveit í ferða­þjónustu, fisk­vinnslu og við sauð­fjár­bú­skap. Helgi er menntaður í við­skipta­fræði og hefur lokið MBA gráðu frá Há­skóla Ís­lands. Þá segir hann að hann hafi þjálfað leið­toga­færni sína í bæði hand­boltanum á Sel­fossi og í Mos­fells­bænum, hjá Spari­sjóði Suður-Þing­eyinga, við kennslu í Há­skóla Ís­lands og sem for­maður veiði­fé­lags Mý­vatns.

Helgi er ekki á eini sem til­kynnt hefur um fram­boð fyrir flokkinn í Norð­austur­kjör­dæmi en Líneik Anna Sæ­vars­dóttir Al­þingis­maður hefur til­kynnt um fram­boð sitt í 1. sæti Fram­sóknar­flokksins í Norð­austur­kjör­dæmi. Þá hefur

Þórarinn Ingi Péturs­son fyrr­verandi for­maður sauð­fjár­bænda og vara­þing­maður Norð­austur­kjör­dæmis til­kynnt að hann sækist eftir öðru sæti á fram­boðs­lista Fram­sóknar­flokksins í kjör­dæminu.