Helgi Björns er kominn í hálf­sjálf­skipaða sótt­kví eftir að mögu­legt smit kom upp hjá einum af aðal­gestum hans sem átti að koma fram í þætti Helga í kvöld. Helgi og hljóðfæra­leikarar þáttarins hafa verið að æfa með við­komandi í vikunni. Þátturinn í kvöld verður því með breyttu sniði. Helgi mun ekki koma fram í beinni heldur verður sýnt brot af því besta úr fyrri þáttum hans hjá Sjón­varpi Símans.

„Það er ekki ó­lík­legt að gestur hjá okkur hafi smitast. Hann var í þó­nokkru sam­neyti við ein­stak­ling sem hafði smitast. Við vorum að æfa með honum í gær og viljum ekki taka neina sénsa,“ segir Helgi í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Við vonum auð­vitað að enginn hafi smitast,“ segir hann. „Fyrst og fremst vildum við fara að öllu með gát. Það er ekki á­stæða til að óttast neitt en full á­stæða til að fara var­lega.“ Sá sem átti að koma fram með Helga sýnir þó ekki nein ein­kenni eins og er.

„Það kemur í ljós á næstu sólar­hringum hvernig þetta þróast. Þannig þangað til þá er bara að hlýða Víði,“ segir Helgi.

„Við vorum búin að búa okkur undir að þessi staða gæti komið upp og við erum með við­bragðs­á­ætlun sem var virkjuð núna um 11:30, nokkrum mínútum eftir að við fengum þessar fréttir,” Segir Pálmi Guð­munds­son dag­skrár­stjóri Sjón­varps Símans í til­kynningu sem var send út rétt í þessu. Þátturinn verður á sínum tíma klukkan 20 í kvöld en ó­líkt lifandi út­sendingu verða send brot af bestu flutningum Helga og hans gesta það sem af er hausti.