Siggi Stormur fór yfir helgarveðrið í Fréttavaktinni á Hringbraut í gær en að hans sögn verður besta veðrið á norðausturhorninu um helgina. „Bara að skella sér þangað í sól og sumaryl. Það liggur við, enda sumadagurinn fyrsti eftir viku,“ segir Siggi meðal annars.

Annars staðar á landinu má gera ráð fyrir úrkomu þar sem lægð er nú milli Íslands og Grænlands. Krafturinn fer þó úr lægðinni á laugardag og ætti úrkoma að vera minniháttar, þar sem gera má ráð fyrir dembum inn á milli.

„Það má ekki láta blekkjast þótt það verði ekki alveg þurrt þegar menn leggja af stað í göngutúrinn, það getur hæglega stytt upp þegar að á fram líður,“ segir Siggi enn fremur. Á sunnudag fer síðan að kólna í veðri.

Þá fær Siggi aðsendar myndir frá Hólmgeiri Karlssyni og Þórarinni Hjálmarssyni og fer yfir veðurfræðileg fyrirbæri sem finna má á myndunum.