Fréttablaðið greindi frá því í morgun að uppnám hafi orðið á fundi umhverfis- og samgöngunefndar þegar tillögu Helgu Völu Helgadóttur um að kosið yrði um nýja forystu nefndarinnar var vísað frá. Bergþór Ólason er formaður nefndarinnar og stýrði í morgun fyrsta fundi sínum eftir að hann sneri aftur úr sínu launalausa leyfi.

Sjá einnig: Meirihluti nefndarinnar vill Bergþór áfram sem formann

„Stjórnmálin geta á köflum verið undarleg,“ skrifar Helga Vala á Facebook og vísar til þess að stjórnarliðar, að frátalinni Rósu Björku Brynjólfsdóttur, þingkonu VG, hafi greitt atkvæði gegn tillögu hennar.

Hún nefnir sérstaklega að „klaustursmennirnir“ Karl Gauti Hjaltason og Bergþór hafi greitt atkvæði gegn tillögunni og verið í hópi þeirra sem studdu „frávísunartillögu Jóns Gunnarssonar sjálfstæðismanns og að því er virðist sérstaks stuðningsmanns Bergþórs í stóli formanns.“

„Mér þykir þetta allt saman vera hið sérstakasta mál og skil eiginlega alls ekki hvers vegna stjórnarmeirihlutinn hefur nú ákveðið að slá skjaldborg um Bergþór,“ segir Helga Vala í Facebook-færslu sinni eftir fundin þar sem fleira kom henni á óvart:

Sjá einnig: Bergþór stýrir fundinum þvert á vilja meirihluta nefndar

„Þá greiddu allir stjórnarþingmenn ásamt formanninum Bergþóri Ólafssyni með tillögum Jóns Gunnarssonar um vegaskatt, þar á meðal VG liðar sem þó eru í flokki sem hefur samþykkt á landsfundi að ekki skuli fjármagna vegakerfið með vegaskatti. Þessar tillögur voru afgreiddar út úr nefndinni á fimm mínútum í lok fundar, án umræðu.“