Helga Vala Helga­dóttir, for­maður vel­ferðar­nefndar Al­þingis, segist í sam­tali við Frétta­blaðið ekki skilja hvað Svan­dísi Svavars­dóttur, heil­brigðis­ráð­herra, gekk til með orðum sínum á fundi með lækna­ráði Land­spítalans í gær.

Hún segist hafa rætt við fjöl­marga sem starfa á Land­spítalanum í dag og öllum sé brugðið við orð Svan­dísar. „Þetta truflar mjög starfs­fólkið,“ segir hún.

Á fundinum sagði Svandís meðal annars að læknar ættu ekki að tala um neyðarástand á Landspítala og bað lækna um að tala ekki niður spítalann. Það fælist mikil ábyrgð í því að lýsa því yfir að heilbrigðiskerfið væri ónýtt.

Henni finnist málið jafn­framt mjög skrýtið. „Það er mjög skrýtið þegar heil­brigðis­ráð­herra segir að það sé á­skorun að standa með Land­spítala, þegar starfs­fólkið leyfir sér að lýsa raun­veru­leikanum í vinnunni þeirra.“

Þetta sé al­var­legt þar sem um sé að ræða þjóðar­sjúkra­húsið. „Ekki eitt­hvað skúffu­fyrir­tæki þessara ein­stak­linga. Hún er að tala um þjóðar­sjúkra­húsið þar sem þetta fólk starfar fyrir sjúk­linga og okkur öll. Mér finnst mjög skrýtið af henni að taka svona til orða.“

Helga segir að hún hrein­lega skilji ekki hvað Svan­dísi hafi gengið til og hún sé þakk­lát fyrir að heil­brigðis­starfs­fólk hafi sagt frá á­standinu á Land­spítalanum. Á fundi vel­ferðar­ráðs hafi heil­brigðis­starfs­fólk bent á lausnir, það sé það sem þurfi að gera. „Og það er þar sem við eigum að vera að hlusta.“