Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segist sammála Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi ráðherra og einum stofnanda Vinstri grænna, um að þau ættu að breyta nafni sínu.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir Helga Vala að bæði vinstri og grænt hafi fengið að fjúka í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í nafni pólitísks stöðugleika og að flokkurinn hafi breytt íslenskri pólitík á þessu ári með því að halda áfram samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.
„Stóru málin sem Vinstri græn voru stofnuð um, sem skiptu að sögn þeirra sköpum um þátttöku flokksins í síðustu ríkisstjórn, hafa nú verið færð öðrum flokkum fyrir það eitt að leiðtogi flokksins fái áfram að sitja í stjórnarráðinu. Meint afsökun stjórnarsamstarfsins á síðasta kjörtímabili, að hér hafi ríkt stjórnarkreppa, er rækilega hrakin með áframhaldandi samstarfi við íhaldið,“ segir Helga Vala og að hér hafi ekki verið nein stjórnarkreppa og að hafi allir vitað sem starfi innan stjórnmálanna.
Félagshyggjufólk klórar sér í kollinum
Helga Vala segir að það hafi ávallt verið ásetningu forsvarsmanna VG að komast í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en að eftir sitji félagshyggjufólk sem klórar sér í kollinum yfir því hvað hafi orðið af metnaði þeirra og stóru orðin.
Langstærsta verkefni stjórnmálanna er ekki að viðhalda pólitískum stöðugleika heldur samfélagslegri velferð. Þeim samfélögum sem leggja áherslu á jöfnuð farnast best. Það næst aðeins með alvöru aðgerðum þar sem tekjum og útgjöldum ríkisins er beitt með jöfnuð að leiðarljósi. Þá verðum við án tafar að bregðast við stærstu heilsufarsvá samtímans, geðrænum áskorunum, sem varað var við að myndu aukast í heimsfaraldri,“ segir Helga Vala og gagnrýnir að ekki hafi fengist fjármagn í fjárlögum til að greiða fyrir sálfræðiaðstoð.
Pistilinn er hægt að lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.