Helga Vala Helga­dóttir, odd­viti Sam­fylkingarinnar í Reykja­víkur­kjör­dæmi norður, segist vera mikið kosninga­nörd. Þegar hún hefur ekki verið í fram­boði þá hefur venjan verið að halda kosninga­vöku.

„Eigin­lega það versta við að vera sjálf í fram­boði er að geta ekki verið heima með excel skjalið opið í nátt­fötunum með vinum mínum sem eru líka kosninga­nörd,“ segir Helga.

Helga segist hafa byrjað daginn á því að fara í heita pottinn í Vestur­bæjar­laug. Svo hafi hún farið með nánast allri fjöl­skyldunni sinni á kjör­stað að kjósa. „Svo bara löbbuðum við í gegnum bæinn og ég er búin að vera hér síðan að tala við fólk,“ segir hún.

Það hefur vakið sér­staka at­hygli Helgu hversu mikið af fjöl­skyldum hafa mætt í kosninga­kaffi Sam­fylkingarinnar með ungt fólk sem er að kjósa í fyrsta skipti að fá upp­lýsingar.

„Þetta er alveg nýtt,“ segir Helga. „Og ég er svo imponeruð af þessum for­eldrum sem eru að koma hingað óháð sínum skoðunum. Þetta er ekki fólk úr flokknum heldur fólk utan af götunum sem vill koma hingað til að fræða börnin sín.“

Í kosninga­kaffi Sam­fylkingarinnar var mikið af kræsingum en Helga segir það vera hefð fyrir því að halda Pálinu­boð á kjör­dag. „Fram­bjóð­endur raða alls­konar veitingum á borðið og líka fólk frá flokknum,“ segir hún.

Helga er á­nægð með góða kjör­sókn það sem af er degi. Hún segir það boða „meira gaman og bjartari nótt.“