Helga Vala Helgadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segist vera mikið kosninganörd. Þegar hún hefur ekki verið í framboði þá hefur venjan verið að halda kosningavöku.
„Eiginlega það versta við að vera sjálf í framboði er að geta ekki verið heima með excel skjalið opið í náttfötunum með vinum mínum sem eru líka kosninganörd,“ segir Helga.
Helga segist hafa byrjað daginn á því að fara í heita pottinn í Vesturbæjarlaug. Svo hafi hún farið með nánast allri fjölskyldunni sinni á kjörstað að kjósa. „Svo bara löbbuðum við í gegnum bæinn og ég er búin að vera hér síðan að tala við fólk,“ segir hún.
Það hefur vakið sérstaka athygli Helgu hversu mikið af fjölskyldum hafa mætt í kosningakaffi Samfylkingarinnar með ungt fólk sem er að kjósa í fyrsta skipti að fá upplýsingar.
„Þetta er alveg nýtt,“ segir Helga. „Og ég er svo imponeruð af þessum foreldrum sem eru að koma hingað óháð sínum skoðunum. Þetta er ekki fólk úr flokknum heldur fólk utan af götunum sem vill koma hingað til að fræða börnin sín.“
Í kosningakaffi Samfylkingarinnar var mikið af kræsingum en Helga segir það vera hefð fyrir því að halda Pálinuboð á kjördag. „Frambjóðendur raða allskonar veitingum á borðið og líka fólk frá flokknum,“ segir hún.
Helga er ánægð með góða kjörsókn það sem af er degi. Hún segir það boða „meira gaman og bjartari nótt.“