Helga Vala segist finna síaukinn áhuga á Samfylkingunni og segir nýtt fólk á öllum aldri vera að ganga til liðs við flokkinn. Hún segir hlutverk varaformanns afar mikilvægt, ekki síst til að þjappa flokksfólki saman og efla liðsheildina í aðdraganda kosninga.

„Ég er þess fullviss að með því að koma samstíga og kjörkuð fram með skýra framtíðarsýn muni kjósendur fela okkur í Samfylkingunni lyklana að stjórnarheimilinu,“ segir Helga Vala.

Sitjandi varaformaður flokksins, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkur, hefur ekki gefið annað til kynna en hún hyggist gegna embættinu áfram og að óbreyttu verður kosið milli þeirra á landsfundinum. Heiða Björg var kjörin í embættið á fundi flokksins í febrúar 2017 og endurkjörin á landsfundi ári síðar.

Helga Vala var fyrst kjörin á þing í síðustu alþingiskosningum árið 2017 en hún leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún hefur þó verið virk í starfi Samfylkingarinnar um árabil og var formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík árin 2008 til 2010.

Helga Vala var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á fyrri hluta kjörtímabilsins en gegnir nú formennsku í velferðarnefnd þingsins.