Helga Benediktsdóttir skilar skömminni til geranda síns eftir 43 ár af þögn þar sem hún segist hafa tekið þátt í þolendaskömmun. Atburðir síðustu daga hafi gersamlega sannfært hana um að trúa ungum konum sem stíga fram.

„Ég er ein af þeim sem hef haft þá skoðun á þessum ungu konum sem hafa verið að koma fram með sínar hræðilegu sögur að þær hafi svona kannski mátt sjálfum sér um kenna. Þær hafi komið sér í þessar aðstæður og þetta væri bara gert til að fá athygli. Öll athygli er víst betri en engin,“ byrjar færsla Helgu sem hún deildi á Facebook. Eiríkur Jónsson fjallaði um frásögn Helgu fyrr í dag og Fréttablaðið ræddi svo við hana.

Þar greinir hún frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir aðeins 16 ára gömul þegar hún var au pair í Kanada.

„Fljótlega fór húsbóndinn að venja komur sínar heim í hádeginu eldaði sér mat og gerðist mjög vinalegur við mig. Ég var einmana og hann las mig eins og opna bók. Byrjaði að taka utan um mig og eitt leiddi að öðru,“ segir Helga. Hún segist hafa talið sig vera ástfangna af manninum sem var á fimmtugsaldri og voru þau farin að stunda kynlíf um mánuði eftir að hún hóf störf hjá fjölskyldunni. Staðan breyttist til hins verra.

„Fljótlega fór hann að senda vini sína heim og ég átti að þjónusta þá líka. Oft sendu þeir leigubíla eftir mér og ég for til þeirra. Þetta er bara stutta útgáfan en hún nægir.“

Segir hún menn eins og þá sem brutu á henni í Kanada vita alveg hvað þeir geri og finni veikleika hjá konum eins og henni.

Átti erfitt með að trúa ungum konum

Helga segist hafa byrgt þetta allt inni í sér og leyft því að hafa neikvæð áhrif á líf sitt. Það hafi orðið til þess að hún hafi ekki staðið með þolendum.

„Hvernig get ég sem sjálf hef upplifað niðurlæginguna, sjálfsásökina og leyft þessu að hafa áhrif á allt mitt líf, hvernig get ég ekki trúað þessum ungu konum og hvatt þær áfram í baráttunni?“

Sjálf segist hún þekkja mörg dæmi um að fullorðnir karlmenn misnoti ungar stúlkar. Hún vilji ekki trúa því að þessir menn séu í eðli sínu vondir en að það sé eitthvað að siðferðinu hjá þessum einstaklingum sem þurfi að laga. Fyrsta skrefið sé að tala um hlutina.

Helga segir í samtali við Fréttablaðið að hún telji ekki stöðu þolenda verri í dag, síður en svo. Eina sé að í dag séu konur farnar að segja frá. Helga vonar að fleiri konur, eldri sem yngri, finni kjark til að segja frá.

„Í gegnum aldirnar hefur kynferðisofbeldi verið þaggað niður en nú koma fram ungar sterkar konur sem hafa ákveðið að tala. Frábært hjá þeim og áfram stelpur. Þetta gætu jú verið mínar/þínar dætur!“