Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst, sem varð fyrir ofbeldi af hálfu fyrrverandi sambýlismanns síns, Gísla Haukssyni, segist aldrei hafa trúað því að hún myndi upplifa jafn mikla ógn og svo mikið ofbeldi inn á heimili sínu af hálfu manneskju sem hún treysti líkt og hún varð fyrir af hendi Gísla.

Dómsuppsaga fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem Gísli var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á Helgu Kristínu og auk þess var hann dæmdur til að greiða henni 500 þúsund krónur í miskabætur ásamt vöxtum frá 14. maí 2020.

Helga Kristín mætti í dómssal í dag og var augljóst að málið tók verulega á hana en hún brast í grát þegar dómur var lesinn upp.

Helga Kristín tjáir sig nú um málið í fyrsta skipti opinberlega á Facebook-síðu sinni. Hún segir léttinn við að málinu sé lokið ólýsanlegan.

Viðurkenning á ofbeldinu

„Sömu nótt hringdi ég í Kvennaathvarfið og bað nánast um númeraðan lista yfir atriði sem ég yrði að gera til að tryggja að ég færi aldrei aftur þarna inn á heimilið.

Ég fór að þeirra ráðum í einu og öllu sem gaf mér svo mikilvægar bjargir vikurnar á eftir. Þakklæti til þeirra verður alltaf til staðar.

„Farðu beina leið á bráðamóttökuna. Áverkar þínar eru á því stigi að þeir gætu verið lífshættulegir”, sögðu þær. Á bráðamóttöku fékk ég staðfestingu,“ segir Helga Kristín meðal annars í færslu sinni.

Helga Kristín segir það hafa verið sér mjög mikilvægt að fá viðurkenningu á ofbeldinu sem hún varð fyrir.

„Líkamlegt ofbeldi skilur eftir merki og hefur áhrif á líðan í langan tíma. Það er því gaslýsing á hæsta stigi þegar gerandi ítrekað neitar sök. Í tvö heil ár. Að hann neitaði sök í allan þennan tíma gerði líðanina á þessum tíma margfalt verri,“ segir Helga Kristín jafnframt í færslu sinni.

Erfitt kæruferli

Að sögn Helgu Kristínar ákvað hún að kæra málið þegar henni fannst hún loks geta dregið andann eftir ofbeldið af hálfu Gísla.

Kæruferlið hafi verið með því erfiðasta sem hún hafi upplifað og á margan hátt hafi hún upplifað eins og kæruferlið hjá lögreglu hafi gert upplifunina af ofbeldinu verri.

„Ég er svo þakklát þeim konum sem börðust á undan mér fyrir því að skila skömminni. Það er þeim að þakka að ég finn ekki í dag fyrir skömm yfir því að það var ráðist á mig.

En mig langar ekki að dvelja í því að þetta var lífsreynsla sem ég bað ekki um og óska engum. Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað,“ segir Helga Kristín jafnframt um málið og bætir við að í dag ljúki þessu ferli.

Gísli sakfelldur

„Í dag var gerandinn sakfelldur eftir að hafa loksins játað brotið. Dómstóll hefur viðurkennt ofbeldið sem átti sér stað bakvið luktar dyr í maí 2020.

Einu og hálfu ári frá kæru. Tveimur árum frá árás.

Léttirinn við að þessu er lokið er ólýsanlegur. Það er bjart framundan enda á ég góða að,“ segir Helga Kristín að lokum.