Helga Jónsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður hjá ESA, mun starfa sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur næstu tvo mánuði á meðan Bjarni Bjarnason, núverandi forstjóri, stígur tímabundið til hliðar. Stjórn Orkuveitunnar féllst því á ósk Bjarna um að stíga til hliðar á meðan óháð úttekt á vinnustaðarmenningu og málefnum þeirra starfsmanna sem hafa verið í kastljósi fjölmiðla síðustu daga. Helga tekur við á mánudaginn kemur.

Eins og komið hefur fram hér á Fréttablaðinu hafa þrír hátt settir stjórnendur innan samsteypu Orkuveitunnar verið sakaðir um kynferðislega áreitni í einhverri mynd. Þá hefur Bjarni Bjarnason, legið undir sök fyrir að taka ekki nægilega vel á þeim málum sem upp hafa komið og er það tilefni þess að hann stígur til hliðar á meðan úttektin fer fram.

Óhætt er að segja að Orkuveitan hefur verið í kastljósi fjölmiðla eftir að tilkynnt var um að Bjarna Má Júlíussyni, þáverandi framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, sem er dótturfélag Orkuveitunnar, hafði verið sagt upp störfum fyrir „óviðunandi framkomu“ í garð kvenkyns starfsmanna fyrirtækisins. Skömmu síðar var tilkynnt að Þórður Ásmundsson, forstöðumaður tækniþróunar hjá Orku náttúrunnar, myndi taka við stöðu Bjarna Más. Sú tilkynning var fljótlega dregin til baka þegar upp kom að Þórður hafði verið sakaður um alvarleg kynferðisbrot áður en hann hóf störf hjá ON. Berglind Rán Ólafsdóttir hefur síðan tekið við sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.

Loks barst fjölmiðlum tilkynning skömmu fyrir tíu á mánudagskvöld frá Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitunni, þar sem hann staðfestir fyrirspurnir um að hafa verið áminntur fyrir óviðeigandi hegðun á árshátíð fyrirtækisins 2015. Hafa því þrír háttsettir stjórnendur innan samsteypu Orkuveitunnar verið sakaðir um kynferðislega áreitni í einhverri mynd á síðastliðinni viku.

Bjarni Bjarnason var ráðinn forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur snemma árs 2011 og óskaði eftir því síðastliðinn mánudag að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp yrðu skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Hann sagðist telja það „afar mikilvægt bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram. Þar mættu ákvarðanir hans ekki vera undanskildar“. Stjórn samþykkti samhljóða að verða við ósk Bjarna og að Helga verði starfandi forstjóri.

Helga hefur gegnt ýmsum opinberum stjórnunarstörfum, verið borgarritari, ráðuneytisstjóri, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og nú síðast stjórnarmaður í ESA, Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel. Hún lét af því starfi í lok árs 2017. Helga var varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2010-2011.

Fyrir fundi stjórnar lá einnig tillaga um að ráðast í óháða úttekt á vinnustaðarmenningu hjá OR og tilteknum starfsmannamálum sem verið hafa til umræðu. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun vinna úttektina með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði. Var stjórnarformanni falið að ganga frá endanlegu samkomulagi þar um. Úttektin verður tvíþætt; annars vegar á vinnustaðarmenningu og hinsvegar á þeim starfsmannamálum sem verið hafa í umræðu. Niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir innan þeirra tveggja mánaða sem settur forstjóri er ráðinn til.