António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, segir að ekki megi líta svo á að hel­förin hafi einungis verið geð­biluð ill­virki nas­ista, heldur afleiðing alda­gamals gyðinga­haturs. Þess er minnst í dag að 75 ár eru frá frelsun út­rýmingar­búðanna Auschwitz.

Í frétt Guar­dian kemur fram að meira en 200 eftir­lif­endur hel­fararinnar safnist saman í dag í minningar­at­höfn í búðunum. Þá mætir fjöldi for­seta, for­sætis­ráð­herra og annarra hátt settra ein­stak­linga á at­höfnina. Eftir­lif­endur eru á aldrinum 75 til 101 árs.

„Það er hættu­leg villa að halda að Hel­förin hafi ein­fald­lega verið afleiðing geð­bilunar glæpa­hóps nas­ista. Þvert á móti var hel­förin há­tindur þess sem nú er kallað gyðinga­hatur eða ár­þúsunda gamals haturs þar sem gyðingar voru gerðir að blóra­bögglum og mis­munað,“ segir Guter­res í til­efni tíma­mótanna.

Gyðingar og aðrir minnihlutahópar voru kerfisbundið myrtir af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni.
Fréttablaðið/Getty

Hann minnir á að jafn­vel eftir að hörmungar Hel­fararinnar urðu öllum ljósar, sé gyðinga­hatur enn þrá­látt.

„Stundum tekur það á sig nýjar myndir og finnur sér far­vegi með nýrri tækni, en það er alltaf sama gamla hatrið. Við megum aldrei sofna á verðinum. Undan­farin ár höfum við horft upp á aukningu á­rása sem rekja má til gyðinga­haturs bæði í Evrópu og Banda­ríkjunum, sem er hluti af ógn­vekjandi upp­gangi út­lendinga­haturs, homma­haturs, mis­mununar og haturs af ýmsu tagi. Jafn­vel nas­ismanum vex fiskur um hrygg, stundum opin­skátt, stundum í dular­gervi.”

Meira en 1,1 milljón manns voru myrtir í búðunum en meiri­hluti þeirra voru gyðingar. Rúm­lega sex milljón gyðinga létust í hel­förinni, þegar nas­istar unnu að kerfis­bundinni út­rýmingu þeirra, auk annarra minni­hluta­hópa.

„Hel­förin var studd og sam­þykkt af ríkis­stjórn. Ekki bara leyfðu þeir henni að gerast, heldur fram­fylgdu þeir henni og hvöttu venju­legt fólk til að verða morðingjar,“ segir Benja­min Lesser, 92 ára eftir­lifandi gyðingur frá Pól­landi.

„Ég er snúinn aftur svo að ég gleymi engum smá­at­riðum um það sem gerðist fyrir mig, svo ég geti haldið minningunum lifandi og stöðvað heiminn frá því að þjást af minnis­leysi,“ segir Lesser og leggur á­herslu á að hann hafi á­hyggjur af vaxandi gyðinga­hatri í heiminum.

Börn í Auschwitz búðunum.
Fréttablaðið/Getty