„Að vera föst í of­beldis­sam­bandi er versta upp­lifun sem ég hef lent í,“ segir Helena Dögg Hilmars­dóttir móðir á Akur­eyri. Hún hefur búið við heimilis­of­beldi og um­sátursein­elti af hendi ofbeldismanns undan­farin ár.

Helena opnaði sig á Twitter í dag þar sem hún greindi frá hrylli­legu of­beldi og stans­lausu á­reiti sem hún hefur lent í. Hún hefur meðal annars kært heimilis­of­beldi, líkams­á­rásir, eigna­spjöll og um­sátursein­elti til lög­reglu. Lítið hafi þó gerst í hennar málum undan­farin ár.

Málið dregist hjá lög­reglu


Helena kveðst afar þakk­lát fyrir þá að­stoð sem lög­reglan hefur veitt henni, en hún er ó­sátt með þann langa tíma sem málið tekur í kerfinu: „Lög­reglan kemur á staðinn, ég er með á­verka og fer upp á slysó, hann fer í varð­hald en núna hefur lög­reglan gert lítið sem ekkert í málinu í tvö ár og það er stans­laust verið að ýta á að gefa út á­kæru áður en málið fyrnist,“ segir Helena.

Hún hefur í­trekað reynt að fá nálgunar­bann á of­beldis­manninn en þrátt fyrir það fær Helena þær upp­lýsingar að ekki sé enn byrjað að rann­saka þetta mál. Þegar hún hefur gengið á lög­regluna um svör og beðið um út­skýringar þess efnis hefur stað­gengill lög­reglu­stjóra borið fyrir sig fjár­skort.

Á meðan ekkert gerist í málinu gengur of­beldis­maðurinn laus sem veldur Helenu miklum ó­þægindum. Hún glímir við stans­lausan kvíða, ó­öryggi og á­falla­streitu í kjöl­far of­beldisins sem hún hefur verið beitt.

Bíll Helenu hefur í­trekað orðið fyrir skemmdum. Rúður hafa verið brotnar, lakkið rispað og skemmt og etanóli hellt í bensín­tankinn. Þá hefur bíll móður hennar sömu­leiðis orðið fyrir sam­bæri­legum skemmdum „Ég veit aldrei hvort ég komi bílnum mínum í gang á morgnana lengur,“ segir Helena.


Þá ofsækir ofbeldismaðurinn hana með símtölum, allan liðlangan daginn: „Og þegar ég var búin að blokka hann alls staðar þá gat hann samt hringt úr leyninúmeri,“ segir Helena.

Segir frá hrotta­fengnum brotum

„Hann hótaði mér að leggja inn á sig pening fyrir fíkni­efnum og þegar ég neitaði þá mætti hann í vinnuna mína með allt draslið mitt í poka, endaði á því að draga mig inn í bíl, fara inn á heima­bankann og leggja inn á sig,“ segir Helena.

Hún segir manninn fylgjast með hverju því sem hún gerir. Hún hafi meðal annars fengið skila­boð frá honum með nöfnum á tveimur mis­munandi lyfjum. Það eru þá lyf sem Helena tók út úr gáttinni deginum áður. „Hann kemst að öllu og stal­kerar allt.“

Þá hafi of­beldis­maðurinn eyði­lagt bíl frænda hennar því sá birti mynd af sér með dóttur hennar á Insta­gram og eyði­lagði sömu­leiðis bíl vinar hennar sökum þess að bíllinn hans var fyrir utan heimili Helenu.

„Hann skildi barnið mitt eftir eftir­lits­laust eina uppi í rúmi í tví­gang og fór út úr í­búðinni niður í geymslu á hæðinni fyrir neðan til að græja sér fíkni­efni, fór svo út og reykti það. Á meðan þetta gerist er tveggja mánaða gamalt barn eitt og eftir­lits­laust uppi í íbúð.“

Þá segir Helena að hún hafi neyðst til þess að eyða mörg­hundruð þúsund krónum í fíkni­efni fyrir hann þar sem hún hafi ekki átt annarra kosta völ. „Annars fékk ég að finna á því í staðinn.“

Í eitt skiptið hafi hann slegið hana svo fast í höfuðið þegar hún hóf máls á því hversu oft hún væri ein með barn sitt að hún missti heyrn um stund.

Þá hafi hann hent símanum hennar í Gler­á í eitt skipti er hún ætlaði að hringja í lög­regluna.

Ekki í boði að segja nei

Í mynd­bandinu segist hún vilja óska þess að hafa komið sér úr of­beldis­sam­bandinu fyrir löngu síðan svo hún þyrfti ekki að standa í þessu enn þann dag í dag. Hún í­trekar þó að hún hafi ekki haft neitt val. „Þetta var ekki spurning um að fara eða segja nei, það var ekki í boði.“

Þetta bitni ekki ein­göngu á henni sjálfri og dóttur hennar heldur allri nánustu fjöl­skyldu hennar.

Hún kveðst ekki vilja vor­kunn eða at­hygli heldur ein­fald­lega að fólk átti sig á al­var­leika málsins. „Þetta er ekki „bara“ um­sátur og eitt­hvað sem ég lenti í fyrir nokkrum árum. Þetta er stans­laust á­reiti, um­sátur, skemmdir á eignum, niðrandi skila­boð og sím­töl, brotist inn á sam­fé­lags­miðla og fylgst með öllu,“ segir Helena.