Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sat fyrir svörum á fundi fjárlaganefndar alþingis í dag til að ræða sölu ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka. Nefndarfólk varpaði fram ýmsum spurningum um framkvæmd sölunnar og stundum kom hiti í leikinn.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata var meðal þeirra sem sendi Bjarna tóninn er hann spurði hvort hann teldi sig geta komist upp með það að selja pabba sínum hlut í bankanum „eftir allt sem hefur gengið á undan?“
„Eftir allt þetta vesen sem þú og flokkurinn þinn eruð búin að láta þjóðina ganga í gegnum á undanförnum áratug,“ segir Björn. „Allir aðrir, myndi maður halda, stjórnmálamenn sem hafa bara snefil af virðingu fyrir siðmenntuðu samfélagi, væru búnir að segja af sér út af hverju einasta máli í þessu. Heldur þú í alvörunni að þú komist upp með þetta?“
Bjarni svaraði því að hér væri verið að varpa fram áróðri og benti á að hann hafi ítrekað verið kosinn inn á Alþingi af kjósendum landsins.
„Ég hef aldrei átt í vandræðum með það að mæta kjósendum í þessu landi,“ segir Bjarni. „Ganga í gegnum kosningar, mæta þér og öðrum mótframbjóðendum, svara fyrir mig og mín mál.“
„Uppistaðan að öllu því sem þú ert að telja er áróður og nú gengum við til kosninga í september síðastliðinn og það var einn þingmaður sem fór með fleiri atkvæði á bak við sig en nokkur annar, sem fékk kosningu í þeim alþingiskosningum, og það er sá sem þú ert að tala við núna,“ segir Bjarni.
Segir stjórnsýslulög hafa verið brotin
Þá spyr Björn hvort Bjarna þyki það hollt fyrir íslenskt samfélag að upp komist að fjármálaráðherra selji pabba sínum hlut í banka.
„Það hefur mjög vel komið fram að þetta voru ekki hlutlægar reglur, fólk var skert á mismunandi hátt. Það er mjög matskennt,“ segir Björn. „Forstjóri bankasýslunnar vissi ekki einu sinni hvaða fyrirtæki þetta var, Hafsilfur, sem er stjarnfræðilega ólíklegt miðað við þekkingu þeirra og reynslu á þessu sviði.“
Björn segir að samkvæmt lögum um fjármögnun hryðjuverka og peningaþvættis þá átti fólk sem er með tengsl við stjórnmálafólk að vera flaggað. „Það var ekki gert,“ segir hann.
„Við vorum ekki í beinni sölu, við vorum að framkvæma útboð. Útboð,“ svarar Bjarni. „Þar sem við vorum með skilgreiningar á því hverjir gætu talist hæfir til að taka þátt.“
„En ef að þingmaðurinn er svona sannfærður um að hér hafi stjórnsýslulög verið brotin, hér hafi lög um peningaþvætti verið brotin, hér hafi margar aðrar lagagreinar að vera brotnar, þá hlýtur hann bara að vera rólegur því allt er þetta til skoðunar,“ sagði Bjarni.