Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sat fyrir svörum á fundi fjár­laga­nefndar al­þingis í dag til að ræða sölu ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Ís­lands­banka. Nefndar­fólk varpaði fram ýmsum spurningum um fram­kvæmd sölunnar og stundum kom hiti í leikinn.

Björn Leví Gunnars­son þing­maður Pírata var meðal þeirra sem sendi Bjarna tóninn er hann spurði hvort hann teldi sig geta komist upp með það að selja pabba sínum hlut í bankanum „eftir allt sem hefur gengið á undan?“

„Eftir allt þetta vesen sem þú og flokkurinn þinn eruð búin að láta þjóðina ganga í gegnum á undan­förnum ára­tug,“ segir Björn. „Allir aðrir, myndi maður halda, stjórn­mála­menn sem hafa bara snefil af virðingu fyrir sið­menntuðu sam­fé­lagi, væru búnir að segja af sér út af hverju einasta máli í þessu. Heldur þú í al­vörunni að þú komist upp með þetta?“

Bjarni svaraði því að hér væri verið að varpa fram á­róðri og benti á að hann hafi í­trekað verið kosinn inn á Al­þingi af kjós­endum landsins.

„Ég hef aldrei átt í vand­ræðum með það að mæta kjós­endum í þessu landi,“ segir Bjarni. „Ganga í gegnum kosningar, mæta þér og öðrum mót­fram­bjóð­endum, svara fyrir mig og mín mál.“

„Uppi­staðan að öllu því sem þú ert að telja er á­róður og nú gengum við til kosninga í septem­ber síðast­liðinn og það var einn þing­maður sem fór með fleiri at­kvæði á bak við sig en nokkur annar, sem fékk kosningu í þeim al­þingis­kosningum, og það er sá sem þú ert að tala við núna,“ segir Bjarni.

Segir stjórnsýslulög hafa verið brotin

Þá spyr Björn hvort Bjarna þyki það hollt fyrir ís­lenskt sam­fé­lag að upp komist að fjár­mála­ráð­herra selji pabba sínum hlut í banka.

„Það hefur mjög vel komið fram að þetta voru ekki hlut­lægar reglur, fólk var skert á mis­munandi hátt. Það er mjög mats­kennt,“ segir Björn. „For­stjóri banka­sýslunnar vissi ekki einu sinni hvaða fyrir­tæki þetta var, Haf­silfur, sem er stjarn­fræði­lega ó­lík­legt miðað við þekkingu þeirra og reynslu á þessu sviði.“

Björn segir að sam­kvæmt lögum um fjár­mögnun hryðju­verka og peninga­þvættis þá átti fólk sem er með tengsl við stjórn­mála­fólk að vera flaggað. „Það var ekki gert,“ segir hann.

„Við vorum ekki í beinni sölu, við vorum að fram­kvæma út­boð. Út­boð,“ svarar Bjarni. „Þar sem við vorum með skil­greiningar á því hverjir gætu talist hæfir til að taka þátt.“

„En ef að þing­maðurinn er svona sann­færður um að hér hafi stjórn­sýslu­lög verið brotin, hér hafi lög um peninga­þvætti verið brotin, hér hafi margar aðrar laga­greinar að vera brotnar, þá hlýtur hann bara að vera ró­legur því allt er þetta til skoðunar,“ sagði Bjarni.