Síðustu helgi opnaði Katrín Björk Guð­jóns­dóttir mál­verka­sýningu „Painting is My New Song“ á Flat­eyri. Í dag er Katrín Björk 29 ára en þegar hún var 21 árs fékk hún heila­blóð­fall, tíu dögum síðar fékk hún blóð­tappa og öðrum sjö mánuðum síðar fékk hún annað heila­blóð­fall. Eftir seinna heila­blóð­fallið lamaðist hún frá hvirfli til ilja.

Síðustu helgi opnaði Katrín Björk mál­verka­sýningu á Flat­eyri, á vinnu­stofu lista­konunnar Jean Larson. „Við Jean vinnum svo vel saman að ég hlakkaði til að koma til hennar og sjá sýninguna,“ segir Katrín Björk í færslu á blogg­síðu hennar katrin­bjork­gu­djons.com, en hún hefur haldið henni úti frá því að hún fékk fyrst heila­blóð­fall og sagt sína bar­áttu­sögu þar.

Katrín Björk og Jean Larson.
Mynd/Katrín Björk Guðjónsdóttir

Lenti í á­falli í júní en er á bata­vegi

Fyrr í sumar fékk Katrín Björk annað heila­á­fall. „Ég fékk annað heila­á­fall í júní sem gerði brekkuna svo­lítið brattari fyrir mig,“ segir hún og bætir við: „Ég er samt sem betur fer enn þá ég sjálf og finn að ég er á bata­vegi.“

Katrín Björk segir að hún hafi hugsað það vel og mikið hvort hún gæti verið við­stödd opnun mál­verka­sýningunnar. „Ég var búin að hugsa mikið um það hvort ég gæti sjálf verið við­stödd opnunina og efaðist satt að segja um það, enda er ég búin að vera mjög slöpp undan­farnar vikur,“ segir Katrín Björk.

Til­búin að vera við­stödd opnunina

Katrín Björk segist hafa vaknað á opnunar­daginn og fundið að hún væri til­búin að vera við­stödd opnunina. Hún brá sér til Flat­eyrar og opnaði sýninguna með Jean og góðum vinum sem skipu­lögðu sýninguna með henni.

„Við mamma undir­bjuggum daginn vel og mér fannst svo gaman að velja loksins föt og hafa mig að­eins til. Ég hafði ekkert farið af spítalanum síðan ég fékk á­fallið um daginn og ég fann til­hlökkunina hríslast um mig,“ segir Katrín Björk.

„Ég sá strax hvað myndirnar mínar nutu sín vel á veggnum,“ segir hún en Jean var búin að gera vinnu­stofuna til­búna fyrir sýninguna.

Fjöldi fólks mætti á opnun málverkasýningunnar.
Mynd/Katrín Björk Guðjónsdóttir

Margir stöldruðu í góða veðrinu

Katrínu Björk segist hafa brugðið við að sjá hvað margir gestir mættu á sýninguna. „Mér fannst æðis­legt að hitta allt þetta fólk og finna stemninguna á staðnum og alla já­kvæðu orkuna. Ég hitti marga vini og kynntist líka nýju fólki sem var á­huga­samt um myndirnar mínar,“ segir hún.

„Það var svo gaman að sjá hvað margir stöldruðu lengi við og spjölluðu fyrir utan Krumma­kot í góða veðrinu sem við fengum þennan dag,“ segir Katrín Björk en hún bætir við að hún muni taka þennan kraft með sér inn í næstu vikur og býður öllum að koma að skoða sýninguna hennar, Painting is My New Song.

Á komandi dögum mun Katrín Björk opna vef­verslun á blogg­síðu sinni þar sem hægt verður að kaupa verkin hennar. Þau eru tölu­sett og verða í tak­mörkuðu upp­lagi. Hægt er að skoða blogg­síðu hennar með því að smella hér.