Listakonan Ýr Jóhannsdóttir, einnig þekkt sem Ýrúrarí, heldur furðupeysunámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem krökkum á aldrinum 10 til 12 ára gefst færi á að gefa gömlum peysum nýtt líf. Hún segir áberandi mun á því að kenna krökkum og fullorðnum. „Krakkarnir eru svo miklu opnari fyrir því að prufa eitthvað bull og gera bara eitthvað.“

Sleik- og gubbu peysur fyrir fræga fólkið

Ýr hefur hannað undir nafninu Ýrúrari frá því árið 2012 og hefur löngum gert garðinn frægan fyrir sleik- og gubb peysur, en meðal kaupenda eru tónlistarkonan Erykah Badu og stílisti Miley Cyrus. Ýr leggur upp úr því að sporna gegn umhverfisáhrifum textíl framleiðslu og er furðupeysu námskeiðið hluti af því.

Ýr hefur haft í nógu að snúast við ýmsa hönnun síðustu ár.

Krakkarnir lunknari en henni hafði grunað

„Ég hélt þetta námskeið í fyrsta skipti fyrir þremur vikum og svo er ég að halda annað námskeið í ágúst.“ Þetta var í fyrsta skipti sem Ýr var að kenna krökkum og segir hún námskeiði hafa gengið vonum framar.

Útgangspunktur námskeiðsins var að skapa eitthvað nýtt og nýta til þess afgangsgarn og skraut frá Rauða krossinum. „Þau komu öll með gamla peysu af sér eða eitthvað sem þau fengu gefins sem mátti lappa upp á og gera skemmtilegra.“

„Ég var smá smeyk að gera þetta með krökkum af því að þetta er svo mikil handavinna og það getur verið erfitt að koma fólki af stað en þetta small bara allt saman að lokum.“ Ýr segir ómögulegt að velja sér uppáhaldspeysu þar sem allar hafi verið komnar með sinn eigin karakter í lokin.

Afrakstur fyrsta námskeiðsins var fjölbreyttur.

Furðupeysur gegn hamfarahlýnun

Námskeiðið er að sögn Ýrar kjörin leið til sporna gegn hamfarahlýnun og endurvinna hluti í stað þess að henda þeim. „Þetta er lúmsk leið til að ganga í hlutina í staðin fyrir að spjalla endalaust um þá.“

Hún segir hnattræna hlýnun vera huglæga þessum aldurshóp sem hefur tekið hvað mest í vitundarvakningu frumkvöðulsins Gretu Thunberg. „Við ræddum það samt ekkert mikið, við vorum aðallega bara eitthvað að leika okkur í handavinnu,“ bætir hún við.

Krakkarnir ekki fastir í kassanum

Ýr telur það skemmtilegast við að vinna með börnum er hversu villt hugmyndaflug þau eru með. „Ég hélt námskeið á Blönduósi á prjónafestivali um daginn og þar var töluvert af eldra fólki sem vildi helst fara eftir gömlum handavinnureglum og voru að vinna meira inni í kassanum en krakkarnir gera bara það sem þeim sýnist.“

Draumur Ýrar er að blanda báðum heimum saman og hafa reynsluna og ímyndunaraflið í samstarfi. „Draumurinn er að fá fullorðna og börn saman á námskeið og blanda handavinnu hæfninni við hugmyndaflugið.“

Ein af endurnýjuðu peysum námskeiðsins.