Útvarpskonan Kristín Sif Björg­vins­dóttir og fé­lagar sem sækja æfingar reglu­lega í Cross­fit Reykja­vík héldu ein­staka sam­stöðu­æfingu í morgun með fé­laga sínum Davíð Erni Kjartans­syni. Davíð hefur undan­farið háð bar­áttu við krabba­mein og fékk slæm tíðindi á dögunum.

Hann mætir oft í hverri viku á æfingu í Cross­fit Reykja­vík og er hluti sam­fé­lagsins þar. Kristín segist í sam­tali við Frétta­blaðið að hún og fé­lagar á stöðinni hafi viljað sýna honum sam­stöðu í verki á æfingu dagsins.

Þannig kynnti E­vert Víg­lunds­son, yfir­þjálfari á stöðinni, nýja æfingu til leiks í dag sem nefnd er sér­stak­lega eftir Davíð. Hann var sömu­leiðis tolleraður af æfinga­fé­lögum sínum við mikinn fögnuð við­staddra.

„Ég reyndar tók ekki þátt í tolleringunni, það voru strákarnir sem skutluðu honum upp í loft,“ segir Kristín létt í bragði. Myndband af tolleringunni má sjá neðst í fréttinni. Kristín segir Davíð stóran karakter og þann sem mætir alltaf á æfingar á sunnu­dögum. Þau hafi viljað sýna stuðning sinn í verki.

Það var vel tekið á því á æfingunni sem nefnd er í höfuðið á Davíð.
Fréttablaðið/Aðsend

Opinskár með veikindin

„Og mér fannst bara mikil­vægt að hann finndi að við erum til staðar. Hann hefur verið mjög opinn með veikindi sín og sagði mér frá því um daginn að hann þarf víst að dröslast með þetta það sem eftir er,“ segir Kristín.

„Og í staðinn fyrir að segja honum bara að við séum til staðar þá vildi ég sýna honum það. Svo á sunnu­dögum tökum við alltaf svo­kallaðar hetju­æfingar og E­vert hlóð að þessu sinni í nýja æfingu sem heitir Davíð, og er hún gerð honum til heiðurs.“

Kristín segir þau fé­laga hjá Cross­fit Reykja­vík standa með hvort öðru sama hvað. Það hafi sjaldan verið mikil­vægara en nú. „Og mig langaði svo að sýna honum það. Því ég skrifaði á færslu hjá honum á Face­book um daginn að ég væri til staðar og mér fannst það ekki nóg.“