Andrea Sif Péturs­dóttir fyrir­liði kvenna­lands­liðsins í hóp­fim­leikum er ein reynslu­mesta lands­liðs­konan í liðinu en slæmt slys í á­halda­fim­leikum varð til þess að hún færði sig yfir í hóp­fim­leikana.

Andrea hóf sinn fim­leika­feril árið 2000, þá fjögurra ára gömul, í grunn­hópum hjá Stjörnunni í Garða­bæ. „Mamma og pabbi sendu mig í fim­leika því ég var bara úti um allt,“ segir Andrea létt í bragði.

Andrea hóf fim­leika­feril sinn í á­halda­fim­leikum en fyrir þá sem ekki þekkja muninn er keppt á tví­slá, slá, stökki og gólfi í á­halda­fim­leikum kvenna en í hóp­fim­leikum er keppt á dýnu, trampólíni og gólfi.

Lið­leikinn bjargaði mér

Þegar Andrea var ellefu ára gömul lenti hún slæmu slysi í á­halda­fim­leikum sem á stóran þátt í að hún færði sig yfir í hóp­fim­leika árið 2008.

„Ég var að gera grip­skipti á tví­slá í mars árið áður þegar ég datt og lenti beint á bringunni. Ég fékk fæturna yfir mig og endaði í eins konar sporð­dreka. Ég braut á mér oln­bogann en það héldu allir að ég væri lömuð eftir þetta fall. Ég held að það hafi bjargað mér hversu liðug ég var í bakinu,“ segir Andrea.

Í kjöl­farið fór hún í að­gerð á hendinni og báðum iljunum vegna of stuttra sina. „Þá var ég með gifs á þremur út­limum. Ég hafði verið að kvarta yfir iljunum við mömmu og pabba þegar ég var lítil og það var kominn tími á þá að­gerð. Maður má ekki vera of gamall þegar maður fer í slíka að­gerð og ég var komin á síðasta séns. Þannig að ég var heppin að ná henni,“ segir Andrea.

Erfitt að fara upp á slárnar

Eftir langt endur­hæfingar­ferli átti Andrea erfitt með að fóta sig í á­halda­fim­leikum aftur.

„Ég átti erfitt með að fara aftur upp á tvíslána og svo fannst mér ó­þægi­legt að fara upp á slána. Þetta var allt orðið frekar erfitt,“ segir Andrea sem vildi þó ekki hætta í fim­leikum.

Svo heppi­lega vildi til að þjálfari Andreu í á­halda­fim­leikum þjálfaði einnig í hóp­fim­leikum og stakk upp á því að hún prófaði að skipta yfir. Hún hafði ekki verið nema tvö ár í hóp­fim­leikum þegar hún var valin í ung­linga­lands­liðið og fór á sitt fyrsta Evrópu­meistara­mót árið 2010.

Sama ár vann Ís­lands­meistara­lið Gerplu Evrópu­meistara­titilinn fyrir Ís­lands hönd og breytti veg­ferð í­þróttarinnar hér heima til muna. Í síðustu viku varð lands­liðið í hóp­fim­leikum svo Evrópu­meistari.

Andrea Sif ellefu ára gömul í gifsi á þremur útlimum.
Ljósmynd/aðsend