Hekla María Frið­riks­dóttir hefur starfað á björgunar­skipinu Lou­ise Michel frá því í fyrra. Skipið er skráð undir þýskum fána og hefur hingað til verið fjár­magnað af breska lista­manninum Bank­sy. Til­gangur þess er að bjarga flótta­fólki sem hefur reynt að komast til Evrópu um Mið­jarðar­hafið.

Skipið er skráð í Þýska­landi og eftir fyrstu siglingu skipsins árið 2020 gerðu stjórn­völd at­huga­semd við það að skipið væri skráð sem skemmti­bátur [e. Pleasurecraft] og kyrr­settu skipið vegna þess að sú skráning þótti ekki við­eig­andi fyrir til­gang skipsins.

„Við tók langt ferli við að breyta skráningu skipsins og gera þurfti miklar breytingar til að standast reglu­gerðir undir nýrri skráningu sem „special pur­pose car­go“ skip. Þetta var auð­vitað alveg út í hött því að skráning sem flutninga­skip á ekkert betur við til­gang skipsins. Loksins í nóvember voru allir pappírar og skráningar réttar og við máttum loksins sigla. Við sigldum úr höfn á Spáni á Gaml­árs­kvöld svo þetta er fyrsta „missionið“ mitt með þessu skipi,“ segir Hekla María en hún sigldi út með skipinu í gær, sunnu­dag.

Stefnan er tekin á það sem kallað er SAR Zone 1 eða björgunar- og leitar­svæði eitt og er stað­sett norður af Líbíu.

„Við stað­setjum okkur fyrir utan land­helgina til­búin til að að­stoða þegar á þarf að halda. Við tíma­setjum ferðina okkar þannig að vera komin þangað á þeim tíma sem búast má við brott­förum frá Líbíu. Þetta metum við út frá veðri og öldu­hæð auk reynslu okkar og annarra sam­starfs­aðila. Reynslan hefur kennt okkur að eftir tíma­bil af slæmu veðri eins og síðustu daga má búast við að margir reyni að leggja af stað þegar veður­gluggi opnast,“ segir Hekla María og að á meðan þau séu á þessu svæði séu þau stöðugt að leita að fólki með kíki og öðrum tækjum.

„Við fáum líka upp­lýsingar frá björgunar­mið­stöðum, öðrum skipum á svæðinu, borgara­legum eftir­lits­flug­vélum og Alarmp­hone um báta í sjávar­háska og bregðumst við þeim. Við reynum að komast hjá því að taka fólk um borð á Lou­ise Michel vegna þess hversu smátt skipið okkar er og vonumst frekar til þess að land­helgis­gæslu Ítalíu eða Möltu komi og vinni vinnuna sína og að við getum verið til staðar til að tryggja öryggi fólksins um borð í bátunum þangað til á­byrgar stofnanir koma á vett­vang,“ segir Hekla.

Báturinn er fjármagnaður og myndskreyttur af listamanninum Banksy.
Mynd/Aðsend

Var áður við björgunarstörf í Grikklandi

Hekla hefur þó­nokkra reynslu af slíkum störfum því frá árinu 2015 hefur hún verið á Grikk­landi og við strendur eyjarinnar Les­bos við að að­stoða fólk á flótta sem hefur komið þangað beint frá Tyrk­landi.

„Þar vann ég á harð­botna slöngu­bát (RHIB). Vinur minn sem ég vann með þar hafði sam­band við mig síðast­liðinn apríl til að kanna hvort ég hefði á­huga á að koma að vinna með Lou­ise Michel og um mánuði síðar var ég komin til Spánar. Ég hafði haft auga­stað á að komast í vinnu með ein­hverjum af sam­tökunum sem vinna við leit og björgun í Mið­jarðar­hafinu og var mjög á­nægð þegar hann heyrði í mér,“ segir Hekla María.

Hún segir að henni hafi þótt Lou­ise Michel sér­stak­lega spennandi vegna á­herslunnar sem er lögð á femín­isma, anti-ras­isma, vegan­isma og anti-fas­isma.

„Því ég trúi því að hvers­konar sam­fé­lags­leg kúgun sem á sér stað í kringum okkur sé ná­tengd.“

Skipið er ekki mjög stórt og ekki stór hópur sem starfar um borð og því taka allir að sér nokkur hlut­verk.

„Á­höfnin um borð er mjög reynslu­mikil og vinnur vel saman sem ein heild til að þetta gangi upp. Ég stýri slöngu­bátunum okkar og leiði þann hluta björgunar­að­gerðanna þangað til fólkið sem við erum að að­stoða er komin um borð í annað hvort okkar skipi eða ein­hvers annars. Þá er ég einnig hluti af lækna­t­eyminu og ber á­byrgð á þil­farinu,“ segir Hekla.

Hekla tók þátt í björgunarferð sem endaði við olíuborpallinn Miskar sem er innan lögsögu Möltu.
Mynd/Aðsend

Leita aðstoðar á olíuborpöllum

Frá því að þau gátu aftur siglt út gerir Hekla ráð fyrir því að þau hafi að­stoðað tugi manns. Þann 4. Janúar tók hún þátt í ferð þar sem þau lentu þó í því að hluti þeirra sem þau ætluðu að að­stoða, um 70 manns, voru send aftur af túniska hernum.

„Þau höfðu öll lagt af stað frá Líbíu á einum báti og komu að olíu­bor­pallinum Miskar sem er í eigu Shell,“ segir Hekla en fjallað var um að­gerðina á vef sam­takanna Infomigrants.

Hún segir að þegar þau komu á vett­vang hafi fólkið verið komið upp á olíu­bor­pallinn en hann er stað­settur innan lög­sögu Möltu.

„Það þýðir að björgunar­mið­stöð (Rescu­e Coordination Center) Möltu ber á­byrgð á að sam­rýma björgunar­að­gerðir á því svæði. Við vorum í sam­bandi við starfs­fólk olíu­pallsins og reyndum að komast í sam­band við björgunar­mið­stöð Möltu en þau neituðu að tala við okkur og starfs­fólk olíu­pallsins neituðu að hafa sam­band við þau þrátt fyrir að út­veguðum þeim upp­lýsingar um tengi­lið,“ segir Hekla og að þetta hafi sett þau í erfiða stöðu.

„Við máttum í raun ekkert gera þangað til báturinn með hluta hópsins rak í burtu frá pallinum og var ber­sýni­lega í sjávar­háska. Svipaðar að­stæður koma upp annað slagið þar sem á­byrg stjórn­völd neita að hafa yfir­sjón með björgunar­að­gerðum og borgara­legu björgunar­skipin eru sett í þá stöðu að þurfa að rétt­læta það að hafa að­stoðað fólk í sjávar­háska,“ segir Hekla.

Er það enn víð­tækt vanda­mál að fólk hætti sér í þessa ferð yfir hafið?

„Það er enn mjög mikið af fólki á ó­sjó­hæfum bátum sem leggja af stað yfir Mið­jarðar­hafið og oftast sjáum við mikið um brott­farir frá Líbíu,“ segir Hekla en á vef Flótta­manna­stofnunar Sam­einuðu þjóðanna má sjá að í fyrra fóru um 122 þúsund manns yfir Mið­jarðar­hafið til Evrópu og af þeim létust um tvö þúsund.

„Þetta mn halda á­fram að vera víð­tækt vanda­mál þangað til stjórn­völd breyta um við­horf og hætta að skýla sér bak við stefnur sem þau móta sjálf til að af­saka það að fólk skuli þurfa að drukkna á landa­mærum Evrópu árið 2022. Þetta þarf ekki að gerast en þetta mun halda á­fram að gerast þangað til öruggar fólks­flutnings leiðir eru að­gengi­legar fyrir alla sem á þurfa að halda,“ segir Hekla.

Skipið er vel merkt sem björgunarskip.
Mynd/Aðsend

Ísland er partur af Evrópu

Af hverju viltu vekja at­hygli á þessu vanda­máli á Ís­landi, hvað getum við gert?

„Ég held að þetta sé mál­efni sem mikil­vægt er að tala um alls staðar, á Ís­landi sem og annars staðar. Ís­land er partur af Evrópu og þetta er að gerast á landa­mærum Evrópu vegna pólitískrar stefnu sem lokar landa­mærum og neyðir fólk til að leggja í sjó­ferðir á ó­sjó­hæfum bátum. Í stað þess að þau geti nýtt opin­berar, lög­legar og öruggar leiðir,“ segir Hekla og að henni finnist mikil­vægt að fólk á Ís­landi hafi að­gang að upp­lýsingum um það sem er að gerast í heiminum.

„Ís­lensk yfir­völd geta haft á­hrif á þessa stefnu­mótun,“ segir hún og bendir á að ís­lensk yfir­völd eigi beinan þátt í að­gerðunum því að ís­lenska land­helgis­gæslan leigi út flug­vél til Fron­tex til að vakta landa­mærin.

Hægt er að fylgjast með skipinu hér að neðan á sam­fé­lags­miðlum.