Vísindafólk við Loughborough-háskóla í Bretlandi, sem sérhæfir sig í íþróttarannsóknum, rannsakaði áhrifin sem heitt bað hefur á stjórn blóðsykurs og á brennslu. Rannsóknin náði til 14 manna sem annað hvort fóru 40°C heitt bað eða hjóluðu í klukkustund. Tilgangurinn var að hækka líkamshita um 1°C í báðum hópum. Mælt var hversu mörgum kaloríum mennirnir brenndu í hvoru tilfelli. Einnig var blóðsykurinn mældur í sólarhring á eftir.


Áhrif á blóðsykur


Kannski kemur ekki á óvart að þeir sem hjóluðu brenndu fleiri kaloríum en hinir en þó kom í ljós að þeir sem fóru í heitt bað brenndu álíka mörgum kaloríum og í hálftíma göngu, eða um 140 kaloríum. Bæði uppátækin höfðu álíka mikil áhrif á blóðsykurinn nema hvað að blóðsykurinn var 10% lægri klukkustund eftir máltíð hjá baðhópnum miðað við hjólahópinn.

Vísindafólk háskólans segir að þessi óvirka hitun eins og í heitum potti, öfugt við virka hitun með hreyfingu, sé ennþá nokkuð órannsakað viðfangsefni en fyrstu niðurstöður séu spennandi. Slík hitun hafi t.d. áhrif til hins betra á bólguviðbrögð í líkamanum.

Aðrar nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós eins og t.d. hjá Oregon-háskóla í Bandaríkjunum að regluleg heit böð geti lækkað blóðþrýsting. Önnur ný rannsókn varpaði ljósi á að heitt bað hefði góð áhrif á blóðflæði hjá þeim sem þjást af skertu blóðflæði í fótum.


Fyrsta rannsóknin af þessu tagi var gerð í Bandaríkjunum árið 1999 en þar var til skoðunar áhrifin sem þriggja vikna heita potts-meðferð hefði á fólk sem greint var með sykursýki 2. Hún leiddi í ljós jákvæð áhrif á stjórnun blóðsykurs og minnkaða þörf fyrir insúlín.


Loughborough-háskóli vonast til þess að niðurstöður þeirra endurveki áhuga á rannsóknum á þessu sviði. Þangað til annað kemur í ljós er alveg víst að það er óhætt að njóta þess að dýfa sér í heita pottinn og njóta stundarinnar.