Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið því að hann muni innlima landtökubyggðir Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum inn í Ísrael ef hann hlýtur endurkjör.

Þingkosningar fara fram í Ísrael á fimmtudaginn en nokkuð hefur mætt að forsætisráðherranum síðustu misseri. Hann hefur meðal annars verið sakaður um spillingu og hefur ríkisstjórn hans einungis nauman meirihluta á þingi. BBC greinir frá.

Ísraelska ríkið hefur staðið fyrir byggingu landtökubyggða frá því Vesturbakkin, Austur-Jerúsalem og Gaza-svæðið voru hernumin árið 1967. Eru þær ólögmætar samkvæmt alþjóðalögum en ísraelska ríkið hefur þrætt fyrir lögmæti þeirra. Stjórnvöld gera þó greinarmun á landtökubyggðum út frá því hverjar þeirra hafa verið samþykktar af stjórnvöldum og hverjar ekki.

Þrátt fyrir að byggðirnar séu ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum hefur lítið verið gert í að koma í veg fyrir þær og rísa nýjar með reglulegu millibili. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi þó landtökubyggðirnar árið 2016.

Ný landtökubyggð á Vesturbakkanum í byggingu.

Um fjögur hundruð þúsund Ísraelar búa nú í landtökubyggðum á Vesturbakkanum og um tvö hundruð þúsund í sambærilegum byggðum í Austur-Jerúsalem. Byggðirnar stækka á ári hverju og líta margir á þær sem eitt af stærri hindrununum sem standa í vegi fyrir sjálfstæðri Palestínu.

Sambærilegar byggðir voru einnig á Gaza-svæðinu en fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels Ariel Sharon tók umdeilda ákvörðun að flytja allt landtökufólk þaðan fyrr á þessari öld.

Fyrrnefnd ummæli lét Netanyahu falla í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð þar sem hann var spurður hvers vegna hann hefði ekki nú þegar innlimað landtökubyggðirnar við Ísrael. „Þú ert að spyrja hvort við séum að stíga skrefinu lengra, svarið er já, við munum stíga skrefinu lengra,“ sagi forsætisráðherrann. Þá sagðist hann ekki gera neinn greinarmun á milli stærri landtökubyggða og minni, en sem fyrr segir gera ísraelsk stjórnvöld greinamun á slíkum byggðum.

Talsmaður Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, sagði í samtali við Rauters fréttastöðina fyrr í kvöld að slíkar aðgerðir breyttu ekki staðreyndunum. Landtökubyggðir væru ólöglegar og þær þyrftu að fara.

Benjamin og eiginkona hans Sara.