„Það er sjálfsagt að reyna að leysa úr þessu og komast að sanngjarnri niðurstöðu,“ segir Skúli Skúlason, formaður siðanefndar Háskóla Íslands, um kvörtun Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og doktors í norrænum fræðum, sem sakar seðlabankastjóra um ritstuld í kvörtun til nefndarinnar.

Nefndin hittist á fundi í gær og tók ákvörðun um að málið yrði tekið til formlegrar meðferðar hjá nefndinni.

„Við munum safna upplýsingum um málið, vega það og meta og nálgast málið af óhlutdrægni,“ segir Skúli aðspurður um málsmeðferðina og bætir við: „Ég hef lagt áherslu á að þetta er ekki dómsmál og að við erum ekki dómstóll.“