Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjamenn ætla að beita Íran hörðustu refsiaðgerðum sögunnar. BBC greinir frá.

Sagði hann enn fremur í ræðu sinni, á fundi í Washington, að Íranir myndu berjast við að halda hagkerfi sínu gangandi eftir að Bandaríkjamenn hefðu lokið sér af. Donald Trump ákvað fyrr í mánuðinum að segja upp samningi Bandaríkjanna við Íran um kjarnorkuvopn.

„Stjórnvöld í Teheran munu ekki efast um alvarleika okkar í málinu,“ sagði Pompeo, sem tók nýlega við embættinu af Rex Tillerson.

„Íranir munu aldrei hafa frjálsar hendur til þess að ráða yfir Mið-Austurlöndum aftur,“ bætti hann við að lokum og ítrekaði að hann hefði litlar áhyggjur af viðbrögðum Írana. Ríkisstjórnin myndi í samstarfi við varnarmálaráðuneytið verjast hvers kyns árásum sem þeir kynnu að beita.