Hluti Reykja­víkur­borgar er nú heita­vatns­laus og kemst heitt vatn lík­lega ekki aftur á fyrr en rétt eftir mið­nætti. Heita­vatns­leysið stafar af því að lögn fór í sundur við Vals­heimilið við við­gerð á stofn­hæð hita­veitunnar í kvöld.


Verið er að vinna að því að setja vatn aftur á í þeim hluta borgarinnar sem nú er heita­vatns­laus en það er í Vestur­bænum, Mið­bænum, Hlíðunum, Öskju­hlíð og við Hlíðar­enda. Á meðan unnið er að því mæla Veitur með því að í­búar svæðisins hafi glugga á heimilum sínum lokaða enda kalt úti.


Bilunin tengist stórum leka sem varð á svipuðum stað síðasta desember. Þá var gert við stað­bundna skemmd á lögninni en Veitur segja að nú sé ljóst að lekinn hafi valdið skemmdum víðar á lögninni. Hún verður nú tekin úr rekstri svo ekki verði frekari truflanir vegna hennar.


Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heita­vatns­krana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst aftur á. Þá er fólki ráð­lagt að passa að hafa glugga og úti­dyr ekki mikið opnar á meðan ofnarnir virka ekki svo ekki kólni mikið í húsum.

Uppfært kl. 22:57: Ljóst er að heitavatnslaust verður í vesturhluta borgarinnar þar til í fyrramálið. Rétt fyrir klukkan hálf ellefu barst tilkynning frá Veitum um að ekki sé hægt að veita heitu vatni með þeim leiðum sem skoðaðar voru og verður ekki hægt að greiða úr málinu fyrr en í fyrramálið.