Mikið spennu­flökkt varð á flutnings­kerfi Lands­net um klukkan 18:00 í dag. Það hafði á­hrif á raf­dreifi­kerfi Veitna. Raf­magnið fór af í að­eins ör­stutta stund en það dugði til að dælur í hita­veitu á höfuð­borgar­svæðinu slógu út svo heita­vatns­laust varð hjá í­búum í efri byggðum. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Orku­veitunni.

Það gekk vel að koma dælunum aftur í gang en rétt þegar því verk­efni var að ljúka varð aftur spennu­flökkt og dælurnar slógu út aftur. Unnið hefur verið að því að því að koma dælunum aftur í gang. Verði ekki annað spennu­flökkt ættu allir í­búar höfuð­borgar­svæðisins að vera komnir með heitt vatn innan stundar.