Ný gönguleið, svokölluð gönguleið C, er vinsælasti slóðinn í dag að gosstöðvunum eftir að hraun flæddi yfir gönguleið A.

Stór hluti erlendra ferðamanna lagði leið sína að hrauntungunni fyrir ofan Nátthaga en landverðir sem mæta gestum við Suðurstrandarveg mæla með þessari leið. Hún er styttri, tekur aðeins 30 mínútur að komast frá bílastæðinu að hrauninu í Nátthaga og um 45 mínútur upp að „fossinum“ fyrir meðal göngumenn.

Fólk hefur komið sér fyrir í brekkunni fyrir ofan hrauntunguna sem rennur niður í Nátthaga. Mikill hiti kemur frá hrauninu.
Mynd: Aðsend

Byggingarverkfræðingar frá Verkís hafa verið á svæðinu í dag að reyna að stýra flæðinu niður í Nátthaga og frá Nátthagakrika.

Um klukkan 19 í kvöld mældist styrkur brennisteinsdíoxíð 2 ppm í nokkrar mínútur, ferðamenn voru þá farnir að hósta og fundu fyrir ertingu í koki. Björgunarsveitarmenn ræddu við leiðsögumenn hjá Reykjavík Excursions sem kölluðu saman hóp Bandaríkjamanna, sem voru þar í skoðunarleiðangri, og benti þeim á að yfirgefa svæðið.

Þá vakti athygli að meirihluta göngumanna voru erlendir ferðamenn og voru fleiri Bandaríkjamenn en Íslendingar við gossvæðið í dag.

Byggingarverkfræðingar frá Verkís hafa rutt nýja gönguleið út frá gönguleið A í átt að Geldingadölum. Efst á hæðinni er grafa og ýta.
Mynd: Aðsend
Hér má sjá ofan í Nátthaga frá hæðinni fyrir ofan hraunfossinn við gönguleið A. Hraunið fyllir dalinn hægt og bítandi.
Mynd: Aðsend