Nokkur óvissa ríkir um rekstur almenningssamgangna á Suðurnesjum eftir að Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) sem hélt á rekstrinum frá 2014 sagði samningnum við Vegagerðina lausum um áramótin. Vegagerðin heldur utan um rekstur Strætó á Suðurnesjum til ársloka og þarf því að finna framtíðarrekstraraðila fyrir almenningssamgöngurnar á árinu.

Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, segir forsendur fyrir áframhaldandi rekstri samgangna á svæðinu vera að fjármagn verði tryggt og að halli af fyrri rekstri verði réttur af.

Vegagerðin hyggst ekki koma að rekstrinum lengur en þurfa þykir og er með þjónustusamning við Strætó líkt og verið hefur og fær Strætó bs ekki neinar tekjur af rekstrinum á landsbyggðinni.

Hallarekstur og málaferli

Fram kemur í drögum að fjármálaáætlun ríkisins 2020-2024 að ríkið hyggist endursemja við landshlutasamtök frá og með árinu 2020 um rekstur almenningssamgangna en lítill áhugi virðist vera hjá Sambandi sveitarfélaga á suðurnesjum að öllu óbreyttu. Enn er 90 milljóna króna halli óleiðréttur eftir síðasta samning.

Berglind bendir einnig á að laga þurfi lagaumhverfi almenningssamgangna. „Ekki bara hjá okkur heldur líka á landinu öllu en landshlutasamtökin hafa staðið í málaferlum við aðila sem hafa verið stunda rjómafleytingar. Þ.e.a.s. aka yfir háannatímann en hætta svo akstri þegar farþegum fækkar."

„Þetta er allt saman í endurskoðun, þetta er spurning um niðurgreiðslur til almenningssamgangna sem koma frá ríkinu," segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. „Það er bara ákveðið fjármagn í því, og þarf að finna út úr því hvernig við skipuleggjum það. Það hefur verið gert með því móti að fá sveitafélögin til að koma að skipulagningunni en það náðist ekki samkomulag við SSS um að halda því áfram.“

SSS stefndi Innanríkisráðuneytinu

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum tók við rekstrinum af SBK, félagi í eigu Kynnisferða árið 2014 þegar reksturinn stefndi í þrot. Átti SSS þá að að sjá um rekstur flugrútu í umboði innanríkisráðherra en það breyttist snarlega þegar Vegagerðin felldi einkaleyfið úr gildi samkvæmt tilmælum innanríkisráðherra í bréfi sem barst SSS í desember 2015.

„Í bréfinu afturkallaði Vegagerðin ákvörðun sína um veitingu einkaleyfisins sem áður hafði komið fram í samningum á milli Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Vegagerðin rökstuddi ákvörðun sína með því að farið væri eftir ábendingum Samkeppniseftirlitsins sem og tilmælum þáverandi ráðherra samgöngumála, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur," segir Berglind.

SSS stefndi stefndi Innanríkisráðuneytinu þann 9. október 2015 í kjölfarið en enn hefur ekki fengist niðurstaða í málið. Stoppaði málið m.a. á því að ósannað þótti hver skaðinn hefði orðið af riftun Vegagerðarinnar á leyfinu.

Dómskavaddir matsmenn hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að áætlaður hagnaður af þessari leið á samningstíma SSS og Vegagerðarinnar væri rúmir 3 milljarðar króna.

Málið er í bið vegna gagnaöflunar hjá ríkinu og er fyrirhuguð fyrirtaka í málinu í júlí næstkomandi.

Strætó ekki nógu sýnilegur við flugstöðina

Vísir greindi frá því að þegar SSS hélt á rekstri strætó 2017 hefði gengið erfiðlega að fá upp merkingar um að þjónusta strætó væri í boði og að stoppistöð strætó við flugvöllinn væri helst til langt í burtu. Svaraði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia því að hægt væri að greiða fyrir að fá pláss nær og jafnframt kaupa auglýsingaskilti líkt og önnur fyrirtæki gera.

Berglind segir um viðbrögð Isavia 2017: „Isavia leit svo á að almenningssamgöngur væru undir sama hatti og fyrirtæki í akstri hópferðabifreiða. Þeir vildu ekki koma til móts við ábendingar um að nauðsynlegt væri að bæta merkingar innandyra svo farþegar sæju að í boði væri að nota almenningssamgöngur til að komast til og frá stærsta samgöngumannvirki landsins. Segja má að þetta viðhorf sé einstakt, þar sem á flestum stöðum sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar er leitast við að greiða götu almenningssamgangna.“

Isavia er opinbert hlutafélag sem skilaði 4,2 milljarða hagnaði í fyrra sem er 8% meira en 2017.

Nýlega bætti Isavia upplýsingar á vef sínum um aðgengi að strætó og er búið að setja upp skilti í komusal sem bendir á hvar þjónustu strætó er að finna. „Við hjá Isavia höfum ætíð lagt áherslu á það að veita farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll upplýsingar um hvernig hægt er að nýta sér þjónustu strætisvagna til og frá vellinum. Þær upplýsingar og hvar biðstöð er staðsett má finna á vef okkar, isavia.is bæði íslenska og enska hlutanum af síðu Keflavíkurflugvallar,“ segir Guðjón Helgason.

Enn er stoppistöðin fyrir strætó við Leifsstöð um 200 metra frá flugstöðinni og ekkert skýli er fyrir farþega sem bíða. Jafnframt er stoppistöðin staðsett brottfararmegin við flugvöllin.

Aðspurður um hvort einhver áform væru hjá Vegagerðinni varðandi fyrirkomulag á samgöngum á Suðurnesjum segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar; „Fyrst og fremst er verið að reyna að finna framtíðarskipulag á þessum málum."