Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segist ekki ætla að taka ákvörðun um framtíð blóðmerahalds út frá peningalegum hagsmunum heldur út frá grundvallareglum og siðferði. Hún muni bíða eftir niðurstöðum úr starfshópi sínum sem hún hefur beðið um að skila af sér fyrr vegna þess hversu alvarlegum augum hún lítur þetta mál.

„Ef þetta væri bara einfalt reikningsdæmi um krónur og aura, þá myndum við alltaf taka ákvarðanir bara út frá fjárhagslegum hagsmunum. Það vil ég ekki gera og mun ekki gera. Þarna eru ákveðnar grundvallarreglur undir og siðferðileg álitamál, en þau snúast að markmiðum laga um velferð dýra,“ sagði Svandís á sérstakri umræðu um blóðmerahald á Alþingi.

„Í íslenskri löggjöf eru markmið laga um velferð dýra, þau að stuðla að velferð, að dýrin séu laus við vanlíðan, ótta, hungur o.s.frv. Það er gert ekki af því við séum svo góð heldur vegna þess að dýr eru skyni gæddar verur og hafa gildi í sjálfu sér.“

Málshefjandi er Inga Sæland og til andsvara er matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, sagðist aldrei hafa á sínum þingmannaferli fengið eins mikil viðbrögð og hún fékk vegna frumvarps síns um bann á blóðmerahaldi.

„Ég hefði aldrei trúað því að málið sem ég mælti fyrir hér fyrst í fyrravor, ætti eftir að verða svona risavaxið,“ sagði Inga við upphaf umræðunnar.

„Ætti þá ekki að banna skemmtanahald í miðborg Reykjavíkur þar sem ómannúðlega meðferð á fólki á sér stað flestar helgar?“

„Flokkur fólksins hefur yfirgefið uppruna sinn,“ sagði Haraldur Benediktsson á þingi í dag.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Flokkur fólksins væri með þessu máli að vega að heiðri dýralækna. Hann sagðist ekki geta séð á bókunum í ferðaþjónustu og útflutningi hrossa í janúar að blóðmerahald hafi haft mikil áhrif á ímynd Íslands.

„Að banna heila atvinnugrein á Íslandi. Það gerum við ekki,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Viðreisnar lögðu margir áherslu á að bæta verklag í kringum greinina frekar en að banna hana algjörlega. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvaða grein Flokkur fólksins ætlaði að reyna að banna næst.

„Ætti þá ekki að banna skemmtanahald í miðborg Reykjavíkur þar sem ómannúðlega meðferð á fólki á sér stað flestar helgar?“ spurði Ásmundur.

„Til hvers erum við að þessu? Er þetta spurning um matvælaöryggi? Nei, þetta er spurning um mikinn hagnað fyrir einkafyrirtæki á kostnað ásýndar þjóðarinnar og annarra búgreina. Ég held að við þurfum að stíga mjög fast til jarðar,“ sagði Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem hafnaði því að bann á blóðmerahaldi væri árás á landbúnað.