„Allt í einu er Húsavík orðinn nánast miðdepill tveggja stærstu sjónvarpsviðburða, annars vegar Óskarsverðlaunanna í Ameríku og hins vegar Eurovision í Evrópu. Þetta er eitthvað sem gerist bara einu sinni fyrir lítið sveitarfélag úti á landi,“ segir Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, varaformaður byggðarráðs Norðurþings, en á fundi ráðsins kom James Knox, fulltrúi Netflix, og kynnti næstu skref sjónvarpsrisans er varðar lagið Húsavík og Óskarstilnefningu þess.

Þeir Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, og Örlygur Hnefill Örlygsson fóru einnig yfir þýðingu óskarstilnefningarinnar fyrir fyrirtæki í sveitarfélaginu og sveitarfélagið í heild. Örlygur sá tækifærið snemma og hefur haft veg og vanda að þessu verkefni og náði Netflix og nú bænum með sér í þessa kynningarferð.

Ada segir að þegar tilnefningin var kunngjörð hafi Netflix stokkið af stað og fengið leyfi til að notast við hitt og þetta til að kynna lagið og Húsavík um leið. Knox þessi býr í London og er að undirbúa áframhaldandi vinnu risans í samstarfi við höfuðstöðvarnar í Los Angeles.

„Netflix er komin um borð í þessa lest og við fengum Knox til að koma og segja okkur hver væru næstu skref Netflix. Hvað þau væru að gera og hugsa. Þetta er svo mikil landkynning fyrir Ísland og Húsavík sem ferðamannastað.“Hún segir að myndin hafi klárlega spilað inn í að fleiri ferðamenn komu til Húsavíkur í fyrra – ekki aðeins til að sprella vegna myndarinnar heldur til að njóta alls þess sem Húsavík býður upp á.

„Starfsfólk á þekkingarnetinu, sem var pöbbinn í myndinni, segir mér að það hafi verið fólk fyrir utan á hverjum degi að öskra Ja ja ding dong og taka upp á Instagram,“ segir hún og hlær.

„Kannanir sýna að það er verið að leita töluvert meira að Húsavík og hvað bærinn hafi upp á að bjóða. Sérstaklega eftir að suður-kóreski kvartettinn söng lagið,“ segir hún en hljómsveitin Heartpresso söng lagið í vinsælasta skemmtiþætti landsins, Phantom Singer: All Star, og sló í gegn. Yfir 200 þúsund manns hafa horft á lagið á Youtube. „Ekkert sveitarfélag hefur efni á að gera eitthvað svona líkt. Þetta er alveg ómetanlegt,“ segir Kolbrún Ada.