Þegar Áslaug Kristjánsdóttir frétti að sonur hennar væri á leið í fangelsi segir hún heim sinn hafa hrunið. Áslaug lýsir reynslu sinni af því að vera aðstandandi fanga í hlaðvarpinu Frelsið er yndislegt þar sem Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, ræðir allar hliðar fangelsismála.
„Fyrst þegar hann var kominn í fangelsi þurfti ég að hafa mig alla við til að geta farið í vinnu og geta farið út í búð,“ segir Áslaug. Það hafi ekki síst verið vegna fordóma í samfélaginu.
Kenndi sjálfri sér um
Sárlega vanti aukin stuðning fyrir aðstandendur fanga sem ganga víðast hvar að lokuðum dyrum. „Það kemur rosaleg sjálfsásökun hjá foreldrum barna sem feta þessa braut,“ segir Áslaug og kemst við. „Það finnst öllum það vera þeim að kenna.“
Sú sé þó ekki raunin og kveðst Áslaug ekki álasa sjálfri sér lengur. Hún bendir þó á að fangelsisdómur hafi ekki aðeins áhrif á manneskjuna sem hlaut dóminn heldur alla fjölskylduna og vini þess einstaklings.
Fór snemma í neyslu
Sonur Áslaugar fór snemma að feta ranga braut eftir að hann hætti 14 ára gamall að taka ADHD lyfin sín. Neyslan fylgdi fast á eftir og afbrotin sömuleiðis. Hann var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann tók þátt í ráni. „Þá fór taugakerfið hjá manni alveg að hrynja.“
Árið 2014 hringir lögfræðingur í Áslaugu og segir henni að sonur hennar sé kominn í gæsluvarðhald. „Ég eiginlega frétti þetta ekki fyrr en tveimur dögum seinna en þá var ég búin að gera mikla leit af honum og hringja út um allt þegar ég loks fæ símtalið.“ Hún kveðst hafa fengið taugaáfall í kjölfarið.

Skíthræddur í fangelsinu
Sonur Áslaugar hóf afplánun á Litla Hrauni. „Ég sá þá í raun og veru strákinn sem ég þekkti, hann var bara skíthræddur, það er bara eitt orð yfir það.“ Hann hafi loks gert sér grein fyrir því hvert hann væri búin að koma sér.
Skömmu síðar var hann færður á Kvíabryggju þar sem hann tók ákvörðun um að bæta sig. Hann hóf nám en átti í erfiðleikum með að standa í straum við kostnað þess. „Þeir fengu bara 9 þúsund krónur á viku og þurftu að borga fyrir námið með því.“ Huga þurfi að því að ekki hafi allir aðstandendur efni á að greiða kostnað fanga og því sé oft ómögulegt að klára nám.
Samfangi borgaði skólann
Sonur Áslaugar hafi þó kynnst góðum mönnum í fangelsinu. „Annar þeirra bauðst til að borga skólann fyrir hann [..] og það var annar samfangi tilbúin að sitja heilu dagana og reikna með honum. Þess vegna gat hann þetta.“
Slík hjálpsemi hefði ekki getað átt sér stað á Litla Hrauni þar sem föngum er bannað að vera inni á herbergi hjá hvor öðrum en það sé leyfilegt í opnum fangelsum líkt og Kvíabryggju.
Áslaug segir son sinn vera einn af þeim heppnu sem þurfa að sitja inni. „Hann er að klára málarann núna í maí og stefnir beint í meistarann.“ Ástæða þess sé ekki kerfið heldur heppni. Áslaug segir að hefði hún ekki þekkt mann sem aðstoðaði son hennar að fá vinnu og húsnæði hefði sagan geta verið önnur.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan: