Óhætt er að segja að tíðindin af endurtalningu í þingkosningum hafi vakið heimsathygli enda hafði sú staðreynd að konur yrðu í meirihluta á Alþingi vakið verðskuldaða athygli.

Vefmiðlar í Íran vöktu athygli á því að Lenya Rún Taha Karim, Íslendingur af kúrdískum uppruna sem var í nokkra tíma yngsti meðlimur Alþingis frá upphafi, hefði misst sæti sitt í endurtalningunni.

Það var ekki aðeins í Íran sem tilkynna þurfti að mistök hefðu átt sér stað. Washington Post og AP News fjölluðu um að dregið hefði úr fagnaðarlátum á Íslandi þegar kom í ljós að konur væru ekki í meirihluta.

ABC í Ástralíu vitnaði í orð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um þær jákvæðu fréttir að konur væru í meirihluta en endurtalning hefði gert það að verkum að þær væru það ekki lengur.

Í fyrstu var talið að 33 konur hefðu komist inn á þing og stefndi um tíma í að Ísland yrði fyrsta landið í Evrópu þar sem meirihluti þingmanna væri konur. Fari svo að 30 konur komist inn á þing verða konur í 48 prósenta í hlutfalli á Alþingi sem er hæsta hlutfall kvenna á löggjafarþingi í Evrópu.