Nefnd sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, stofnaði til þess að gera úttekt á vörnum gegn Covid-19 og leggja til úrbætur, telur að of hægt gangi að bæta viðbragðskerfi heimsins gegn næstu heimsfaröldrum. Leggur hún til að varnir gegn þeim næsta sem muni skella á, hefjist samstundis.

Nefndin var stofnuð í september árið 2020 og er undir forystu Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, og Ellen Johnson Sirleaf, fyrrverandi forseta Líberíu. Hálfsársskýrsla þeirra var opinberuð á mánudag.

„Heimurinn er að falla á tíma,“ segir í skýrslunni. „Bylgjur sjúkdóma og dauða halda áfram að skella á okkur. Á norðurhvelinu er fólk innandyra, þreytt á sóttvarnaaðgerðum og misbólusett. Í fátækari löndum hefur fólk nánast ekkert aðgengi að bóluefnum.“

Við kynningu skýrslunnar sagði Sirleaf að skilaboðin væru einföld og skýr. „Núverandi kerfi var ekki í stakk búið til að verja okkur fyrir Covid-19. Og ef við bregðumst ekki við núna, mun það heldur ekki geta varið okkur fyrir næsta heimsfaraldri, sem getur brotist út hvenær sem er,“ sagði hún.

Benti hún á að fyrirheit ríkra landa um að bóluefni myndu skila sér til hinna fátækari, hafi ekki raungerst. Aðeins brot af bóluefni hafi komist til skila, meðal annars í COVAX-samstarfinu. Sagði hún að leggja þyrfti 10 milljarða Bandaríkjadala árlega til varna gegn heimsfaröldrum og þegar ljóst væri að slíkur væri að skella á, þyrftu 100 milljarðar að vera til ráðstöfunar.

Í næstu viku fer fram sérstakur fundur hjá WHO þar sem heilbrigðisráðherrar ræða hvort þörf sé á sérstökum heimssáttmála um viðbrögð við faröldrum. Verður skýrsla Clark og Sirleaf örugglega til tals á þeim fundi.

„Ríki heimsins ættu að eyða minni tíma í að rífast um smáatriði í nefndum á meðan heimsfaraldurinn geisar,“ sagði Clark. „Fólk er að deyja og ný ógn getur sprottið upp hvenær sem er.“

Meðal þess sem Clark og Sirleaf hafa lagt til er að tryggja WHO varanlega fjármögnun til þess að takast á við heimsfaraldra. Einnig að gerður verði sáttmáli um faraldra og stofnað verði sérstakt heimsráð, sem í sitja þjóðarleiðtogar, sem vinni samkvæmt honum.

Áætlað er að fátækari löndin muni hafa fengið 1 milljarð bóluefnaskammta í september síðastliðnum, sem er langt frá því nóg. Í sumum löndum eru vel innan við tíu prósent landsmanna bólusett. Sirleaf benti á það ranglæti að heilbrigðisstarfsfólk í mörgum löndum hefði ekki fengið einn skammt á meðan fólk í ríkum löndum væri að fá sinn þriðja