Antonio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, segir að heimurinn hafi ekki efni á enn einu stríðinu við Persa­flóa og hefur biðlað til Banda­ríkjanna og Íran um að sýna stillingu í deilum sínum í heims­hlutanum. Þetta kemur fram á vef Guar­dian.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá er á­standið í Mið­austur­löndum um þessar mundir eld­fimt eftir að Donald Trump, Banda­­ríkja­­for­­seti, gaf grænt ljós á loft­á­rás þar sem hers­höfðinginn Qa­­sem So­­leimani, var felldur. Undan­farið hafa ríkin tvö átt í stað­­göngu­stríði í Írak og Sýr­landi og hefur spennan aukist jafnt og þétt undan­farna mánuði.

Eins og áður segir hefur á­kvörðun for­setans dregið dilk á eftir sér en hann er harð­lega gagn­rýndur af for­svars­mönnum Demó­krata fyrir að ýta undir ó­stöðug­leika í Mið­austur­löndum. Hann segir hins vegar sjálfur á Twitter í dag að Suleimani hefði átt að vera drepinn fyrir margt löngu fyrir glæpi sína gegn Banda­ríkja­mönnum.

Í til­kynningu frá em­bætti fram­kvæmda­stjórans, biðlar Guter­res til Írana og Banda­ríkjanna að hemja sig um að ýta undir frekari spennu. „Fram­kvæmda­stjórinn hefur í­trekað talað fyrir því að unnið sé gegn spennu á Persa­flóa. Hann hefur miklar á­hyggjur af stöðunni,“ segir tals­maður hans.

„Þetta er stund þar sem leið­togarnir verða að hemja sig með öllu. Heimurinn hefur ekki efni á öðru stríði við Persa­flóa.“

Íranir hafa þegar heitið því að hefna fyrir á­rásina. Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, hefur sagt að So­leimani hafi verið að skipu­leggja nokkrar mikil­vægar á­rásir gegn ríkinu í Mið­austur­löndum og því hafi verið nauð­syn­legt að granda honum á þessum tíma­punkti.